Innlent

Lög­maður í haldi grunaður um skipu­lagða brota­starf­semi

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið en lögmaðurinn er í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði.
Lögreglan á Akureyri rannsakar málið en lögmaðurinn er í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. Vísir/Vilhelm

Starfandi lögmaður var handtekinn fyrir viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um skipulagða brotastarfsemi. Húsleit var framkvæmd á heimili lögmannsins og á vinnustað hans. Hann er meðal annars grunaður um að hafa aðstoðað fólk við að koma til landsins með ólögmætum hætti. Hann hefur auglýst gjaldfrjálsa lögmannsaðstoð til handa fólki sem kemur til landsins.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá því á Facebooksíðu sinni að embættið hafi undanfarna mánuði unnið að umfangsmikilli rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi. Vegna þeirra rannsókna hafi starfandi lögmaður verið handtekinn þann 18. nóvember síðastliðinn grunaður um skipulagða brotastarfsemi sem felst í skipulagðri starfsemi til að aðstoða útlendinga við að koma ólöglega til landsins, peningaþvætti og fíkniefnamisferli. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Héraðsdómur Norðurlands eystra hafi úrskurðað lögmanninn í vikulangt gæsluvarðhald og krafa hafi verið lögð fram um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum. Málið sé í rannsókn og rannsóknin beinist meðal annars að því að upplýsa hvaða fleiri menn tengist starfseminni.

Komi til landsins með nafnspjald í vasanum

Heimildir Vísis herma að grunur hafi vaknað um að lögmaðurinn væri að aðstoða fólk við að komast til landsins með ólögmætum hætti þar sem fólk hafi verið gripið við slíkt með nafn og símanúmer lögmannsins í handraðanum.

Skarphéðinn Aðalsteinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, segist í samtali við Vísi ekki geta greint frá neinum slíkum smáatriðum í rannsókn málsins en segir að rannsóknin snúi meðal annars að ætlaðri aðstoð lögmannsins við fólk sem kemur ólöglega til landsins.

Lögmaðurinn hefur auglýst þjónustu sína á samfélagsmiðlum, meðal annars gagnvart fólki sem komið hefur hingað til lands og lent í vandræðum á landamærunum. Slíka þjónustu segir hann gjaldfrjálsa í auglýsingum.

Húsleit á tveimur stöðum

Þá staðfestir Skarphéðinn að húsleit hafi verið framkvæmd bæði á heimili lögmannsins og vinnustað hans, en hann starfar á lítilli lögmannsstofu. Skarphéðinn kveðst ekki geta upplýst um hvar á landinu maðurinn býr, enda væri hann með því að ljóstra upp um nafn mannsins.

Lögmaðurinn sem um ræðir er ekki búsettur í umdæmi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Skarphéðinn segir að rannsókn málsins tengist meðal annars annarri rannsókn, í máli sem kennt hefur verið við Raufarhöfn. Húsleit var framkvæmd á fjölda staða í júní, meðal annars á Raufarhöfn, í tengslum við ætlaða skipulagða brotastarfsemi.

Rannsókn málsins snýr að fíkniefnaframleiðslu, þá helst á kannabis, en önnur brot hafa einnig verið til rannsóknar. Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur haft umsjón með rannsókninni en átt í samstarfi við önnur lögregluembætti enda teygir meint fíkniefnaframleiðsla anga sína alla leið til Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×