Handbolti

Reynir naut sín eftir langt hlé vegna hjartavandamála

Sindri Sverrisson skrifar
Reynir Þór Stefánsson er byrjaður að láta til sín taka með Melsungen, eftir að hafa þurft að bíða þolinmóður alla leiktíðina vegna hjartavandamála.
Reynir Þór Stefánsson er byrjaður að láta til sín taka með Melsungen, eftir að hafa þurft að bíða þolinmóður alla leiktíðina vegna hjartavandamála. vísir/Anton

Atvinnumannsferill Reynis Þórs Stefánssonar er loks formlega hafinn eftir að þessi efnilegi handboltamaður lék sinn fyrsta leik fyrir Melsungen í kvöld og lét til sín taka í sigri í Evrópudeildinni.

Eftir að hafa verið lykilmaður í tvöföldu meistaraliði Fram á síðustu leiktíð fór Reynir til Melsungen, eins af betri liðum Þýskalands, í sumar.

Fljótlega kom hins vegar í ljós að hann væri með gollurhússbólgu og var honum þar með bannað að æfa og keppa.

Reynir sagði hins vegar í viðtali við Sýn í lok október að bjartari tímar væru fram undan og nú er hann kominn á ferðina.

Reynir skoraði fimm mörk í kvöld í 35-34 sigri á sænska liðinu Karlskrona, og var á meðal markahæstu manna Melsungen.

Melsungen hafði þegar tryggt sig áfram upp úr sínum riðli og gat því leyft sér að hvíla leikmenn á borð við Arnar Frey Arnarsson sem tók ekki þátt í leiknum. Ólafur Guðmundsson og Arnór Viðarsson voru ekki heldur með Karlskrona sem er án stiga á botni E-riðils þegar ein umferð er eftir. 

Í sama riðli tapaði Benfica á útivelli gegn FTC, 33-31, þar sem Stiven Valencia skoraði þrjú marka Benfica. Melsungen er efst með 10 stig, Benfica er í 2. sæti með 6 stig og einnig á leið áfram, og FTC í 3. sæti með 4 stig.

Kristján Örn Kristjánsson skoraði eitt marka SAH sem tapaði á heimavelli gegn Granollers, 28-29, en endar í efsta sæti C-riðils engu að síður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×