Körfubolti

Reyna að leika eftir frækinn sigur: „Gefur okkur trú á verk­efninu“

Aron Guðmundsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason er á sínum stað í íslenska landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Ítölum í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason er á sínum stað í íslenska landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Ítölum í kvöld. Vísir / Hulda Margrét

Ís­lenska karla­lands­liðið í körfu­bolta hefur leik í undan­keppni HM 2027 á úti­velli gegn Ítalíu í kvöld. Liðið býr að góðri reynslu þar eftir að hafa lagt Ítali að velli fyrir ári síðan í einum fræknasta sigri i sögu lands­liðsins og segir að­stoðarþjálfarinn það hjálpa til komandi inn í leik kvöldsins.

Upp­selt er á leik liðanna í D-riðli í kvöld og stemning hjá heimafólki fyrir þessum fyrsta leik beggja liða í undan­keppninni en auk Ís­lands og Ítalíu eru lands­lið Bret­lands og Lit­háen í riðlinum. Þrjú efstu lið riðilsins að lokinni riðla­keppni vinna sér inn sæti á næsta stigi undan­keppninnar.

And­stæðingur kvöldsins, ítalska lands­liðið, er mjög hátt skrifaður og því verðugt verk­efni fram undan fyrir strákana okkar.

Hágæða leikmenn í flestum stöðum

„Eins og leikir eru á móti þessum stórþjóðum þá er mikið að varast,“ segir Baldur Þór Ragnarsson, einn af aðstoðarþjálfurum íslenska landsliðsins í samtali við íþróttadeild. 

Baldur Þór á hliðarlínunni með Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands á Eurobasket fyrr á árinu.Vísir/Hulda Margrét

„Mikið af gæðum sem þeir bjóða upp á. Þarna eru margir leik­menn sem við höfum spilað við áður, en auðvitað vantar ein­hverja líka. Stefa­no Tonut hefur verið okkur erfiður, þá er Gabriele Procida frábær leik­maður sem spilaði með Martin Her­manns­syni í fyrra. Svo eru þeir komnir með Bandaríkja­mann sem er með ítalskt vega­bréf í John Petrucelli sem spilar í efstu deild á Ítalíu, hágæða leik­maður. Í flestum stöðum eru þetta leik­menn á hæsta gæða­stigi leiksins, annað hvort á Ítalíu eða sterkari deildum.“

Góður taktur, gleði og liðsheild

Um er að ræða fyrsta verk­efni ís­lenska lands­liðsins síðan á EuroBa­sket í sumar en síðan þá hefur samningur lands­liðsþjálfarans Cra­ig Peder­sen verið endur­nýjaður til ársins 2029. Baldur segir góða stemningu og trú ríkjandi í lands­liðs­hópnum fyrir komandi verk­efni.

Íslenska liðið er að koma aftur saman í fyrsta skipti síðan á EuroBasket fyrr á árinuVísir/Hulda Margrét

„Við þekkjumst vel, vorum mikið saman í sumar, það er mjög gott sam­band á milli leik­manna og liðs­heild. Mikil gleði að vera komnir saman. Eins og alltaf þurfum við að ná í varnar­stopp á þessu gæða­stigi, við teljum okkur geta búið til góð skot og skorað. Við erum með sóknar­leik á háu gæða­stigi en auðvitað þarf að fylgja alls konar með og menn þurfa að hitta á daginn sinn. En við erum með leik­menn í góðum takti á miðju tíma­bili. Þetta þarf að vera sam­blanda af góðum sóknar- og varnar­leik á sama tíma. “

„Eitthvað sem gefur okkur trú“

Og menn búa að góðri reynslu frá úti­leikjum gegn Ítalíu því fyrir nær akkúrat ári síðan í undan­keppni EuroBa­sket leit dagsins ljós ís­lenskur sigur. Sjö stiga sigur sem er að margra mati einn fræknasti sigur ís­lenska lands liðsins í sögunni á úti­velli. Sigur sem lands­liðið býr að komandi verk­efni.

„Við höfum gert þetta áður, við höfum náð í sigur hérna. Þar voru allir í ákveðnu flæði, allir sem snertu á leiknum komu með gæði inn í þetta. Það er eitt­hvað sem gefur okkur trú á verk­efninu.“

Eigum við von á því að Ítalirnir vilji hefna fyrir þessar ófarir sínar í fyrra?

„Auðvitað. En á sama spiluðum við ein­hvern æfingar­leik við þá fyrir EuroBa­sket og maður fann að þeir voru rosa mikið að hefna þá. Kannski telja þeir sig vera búnir að hefna en það kemur bara í ljós.“

Aðrir muni nýta tækifærið

Kristinn Páls­son, leik­maður Aur­ora á Ítalíu, hefur leikið stórt hlut­verk í ís­lenska lands­liðinu og var drjúgur fyrir liðið í téðum sigur­leik gegn Ítölum fyrir ári síðan þar sem að hann var stiga­hæsti leik­maður liðsins. Hann er hins vegar fjarri góði gamni í kvöld vegna meiðsla. Hvaða áhrif hefur það?

Kristinn í leik með íslenska landsliðinuVísir/Hulda Margrét

„Það þurfa þá bara aðrir að stíga upp. Kristinn er búinn að stíga upp með lands­liðinu síðasta eina og hálfa árið. Hann er orðinn frábær leik­maður, framúr­skarandi skot­maður og með leikskilning á háu stigi. Þá veit hann hvernig er að spila á þessu gæða­stigi. Auðvitað er ekki gott að hafa hann ekki með, sömu sögu er að segja með Kára Jóns sem er frábær í hópnum og frábær lands­liðs­maður. Við erum náttúru­lega bara heppin með að það eru til staðar fleiri góðir leik­menn sem eru með gæðin í að taka stærri hlut­verk að sér. Þeir munu nýta það.“

Leikur Ítalíu og Íslands í undankeppni HM 2027 í körfubolta hefst klukkan sjö í kvöld og verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×