Skoðun

Óstaðsettir í hús

Guðmunda G. Guðmundsdóttir skrifar

Að vera „Óstaðsettir í hús“ þýðir að einstaklingur sé heimilislaus, að vera heimilislaus gerir einstakling ekki að þjóf eða þaðan af verra.

Flestir heimilislausir er mjög gott fólk sem hefur gengið illa að fóta sig í kassalagaðu lífi sem „allir“ eiga að lifa eftir, eða orðið fyrir áföllum.

Heimilislausir eru misjafnir eins og þeir eru margir, sumur eru mikið veikir á sál og líkama oftast vegna þess að þeir fengu ekki viðunandi aðstoð þegar þeir þurftu hennar mest og leiddust út í misnotkun á áfengi og eða öðrum vímuefnum, það gerir þá ekki sjálfkrafa að þjófum.

Sumir eru útlendingar sem voru „plataðir“ hingað á röngum forsendum, bæði varðandi vinnu og íverustað en komast ekki heim, hafa ekki efni á því eða vilja ekki valda sínum nánustu vonbrigðum. Það gerir þá ekki að vondu fólki eða þjófum.

Samhjálp hefur verið til staðar fyrir þessa einstaklinga og marga aðra sem hafa þurft aðstoð því þeir ná ekki að láta launin eða bæturnar duga allan mánuðinn og leita því til Samhjálpar þar sem þau fá mat og vingjarnlegt viðmót, þar er engin dæmdur allir eru velkomnir og flest unnið í sjálfboðastarfi.

Illa er komið fyrir okkur ef við hræðumst að rétta fram hjálparhönd þeim sem þurfa mest á því að halda og geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér þegar vegið er að þeim með ósanngjörnum hætti.

Tökum nú Samhjálp okkur til fyrirmyndar og stöndum saman í að aðstoða þá sem minna mega sín og eiga í fá önnur hús að venda, leyfum Samhjálp, fyrir okkar hönd að hjálpa þeim sem þurfa, fögnum því að til sé fólk eins og þau hjá Samhjálp og styrkjum gott málefni með því að gefa kaffibolla eða máltíð, því það eru ekki allir svo heppnir að eiga heimili eða pening fyrir mat og ættum við að vera þakklát fyrir þann munað á hverjum degi, því maður veit aldrei hvað getur gerst, þess vegna er svo mikilvægt að hafa samtök eins og Samhjálp, fólk sem er tilbúið að aðstoða aðra án fordóma og veita hlýju, vingjarnlegt bros og gera heiminn svo miklu betri fyrir okkur öll.

Ekki óttast óttans vegna, ekki mála skrattann á vegginn, það er engin þörf á því.

Heimilislausir vilja fá að vera í friði og eru ekki að ónáða fólk, láta lítið fyrir sér fara og oftast sjáum við þau ekki eða gerum okkur ekki grein fyrir að þau séu heimilislaus.

Aðstoðum þá sem geta hjálpað öðrum með því að styrkja samtökin, sjá heimasíðu þeirra, en stöndum ekki í vegi fyrir því og alls ekki á röngum forsendum.

Sjálf hef ég þakkað Samhjálp fyrir þeirra ósérhlífna starf því ég hef átt aðstandanda sem var á götunni, og þegar vetur var og kalt þá var gott að vita af Kaffistofu Samhjálpar.

Ég reyni alltaf að styrkja þá um smá upphæð þegar ég get til að þakka þeim og hjálpa þeim að hjálpa öðrum sem eru á erfiðum stað í lífinu.

Höfundur er þakklátur fyrir Samhjálp.




Skoðun

Sjá meira


×