Fótbolti

Vona að Slot haldi á­fram: „Kannski gerði hann of vel á síðustu leik­tíð“

Sindri Sverrisson skrifar
Arne Slot er með Liverpool í neðri helmingi ensku úrvalsdeildarinnar og liðið tapaði svo 4-1 á heimavelli gegn PSV í Meistaradeild Evrópu í gær.
Arne Slot er með Liverpool í neðri helmingi ensku úrvalsdeildarinnar og liðið tapaði svo 4-1 á heimavelli gegn PSV í Meistaradeild Evrópu í gær. Getty/Carl Recine

Liverpool virðist vera í miklum vandræðum og spurningar vakna um framtíð Arne Slot. Málið var rætt í Meistaradeildarmörkunum í gærkvöld.

Í Meistaradeildarmörkunum á Sýn Sport í gærkvöld veltu menn því fyrir sér hvort Slot ætti lítið eftir sem stjóri Liverpool, þrátt fyrir að hafa gert liðið að Englandsmeistara með glæsibrag á sinni fyrstu leiktíð. Liðið steinlá, 4-1, gegn PSV á Anfield í gær.

„Ég vona ekki. Mér finnst þetta vera góður maður, góður þjálfari og hann náði vel til leikmannanna og allt svoleiðis. En hann er að ganga í gegnum svakalega erfiðan kafla núna – allt liðið. Auðvitað er ekki gaman þegar einhver missir starfið sitt en manni finnst að hann eigi skilið nokkra leiki í viðbót,“ sagði Aron Jóhannsson í Meistaradeildarmörkunum.

„En maður þarf að fara að sjá einhverja smá breytingu. Þetta er Liverpool. Þetta eru meistararnir. Kannski gerði hann „of vel“ á síðustu leiktíð, og setti markið of hátt, en þeir eiga ekki að vera í 11. sæti í úrvalsdeildinni,“ sagði Aron en umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Umræða um stöðu Arne Slot

„Í fyrra kaupa þeir enga leikmenn og vinna. Liðið hans Klopp vinnur í fyrra,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson.

„Hann gerði samt liðið hans Klopp betra en Klopp gerði,“ greip Aron inn í og Sigurbjörn tók undir það.

„En núna er hann búinn að fikta í liðinu, fá inn menn og annað slíkt. Nú er þetta liðið hans. Bíddu, hvað er í gangi? Það vinnst varla leikur. Fyrstu leikirnir í deildinni, sem unnust, voru nú ekki beint sannfærandi sigrar. En ég er ekki á því að það eigi að reka hann,“ sagði Sigurbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×