Erlent

Undir­búa Mána-leiðangur Dana til tungsins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Máni fer til Tunglsins og á meðal annars að skoða mögulega lendingarstaði fyrir geimfara framtíðarinnar.
Máni fer til Tunglsins og á meðal annars að skoða mögulega lendingarstaði fyrir geimfara framtíðarinnar. Getty

Dönsk stjórnvöld hyggjast ráðstafa umtalsverðum fjármunum í að kosta leiðangur gervitungls til Tunglsins. Verkefnið hefur hlotið nafnið Máni, með vísan fornnorrænar tungu, en orðið er enn gott og gilt með sama rithætti á íslensku. Danskir vísindamenn við nokkra þarlenda háskóla leiða verkefnið, en að því koma samstarfsaðilar frá fleiri löndum. Markmiðið er að allt verði klárt fyrir Mánaleiðangurinn árið 2029.

Markmiðið er að gervitunglið fari hringferð um Tunglið til að kortleggja hvar geimfarar gætu mögulega lent á tunglinu þegar fram líða stundir. Ætlunin er að Máni verði í þrjú ár í leiðangri um geiminn en Jens Frydenvang, lektor við Kaupmannahafnarháskóla sem leiðir verkefnið, segir að með þessu sé draumur að rætast í samtali við DR.

Dönsk stjórnvöld hafa eyrnamerkt 125-130 milljónir danskra króna, eða um 2,5 milljarða íslenskra króna, til að fjármagna verkefnið sem þó nemur aðeins um þriðjungi af áætluðum heildarkostnaði. Restin verður fjármögnuð af öðrum þátttakendum verkefnisins að því er segir í frétt DR.

Verkefnið hlaut nýverið brautargengi á vettvangi Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) og að því koma nokkrir háskólar, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki, meðal annars í Póllandi, Hollandi og Danmörku. ESA mun gefa út ákvörðun um endanlega forgangsröðun verkefna um miðjan desember en Frydenvang kveðst bjartsýnn á framgang verkefnisins, nú þegar fjármögnun frá danska ríkinu hefur verið tryggð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×