Viðskipti innlent

Högnuðust um rúma tvo milljarða

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Ísfélagið tapaði milljarði á fyrri helmingi ársins en hagnaðist um ríflega tvo milljarða á þriðja ársfjórðungi.
Ísfélagið tapaði milljarði á fyrri helmingi ársins en hagnaðist um ríflega tvo milljarða á þriðja ársfjórðungi. Vísir/Vilhelm

Rekstrartekjur Ísfélagsins á þriðja ársfjórðungi námu 74,7 milljónum dollara og rekstrarhagnaður á sama tímabili nam 17,9 milljónum dollara, sem gera um 2,3 milljarða íslnskra króna á gengi dagsins. Í tilkynningu segir að afkoma félagsins á tímabilinu hafi verið ágæt og skýrist einkum af því að annars vegar hafi veiðar og vinnsla á makríl gengið vel og hins vegar hafi Sólberg ÓF 1, frystitogari félagsins, aflað vel á tímabilinu.

„Einnig hefur verð á helstu afurðum félagsins verið gott og sala afurða gengið vel á árinu. Hjá fyrirtækjum sem stunda uppsjávarvinnslu sveiflast birgðastaðan oft mikið milli vertíða og í lok þriðja ársfjórðungs var talsvert til af birgðum í uppsjávarfiski,“ er haft eftir Stefáni Friðrikssyni, forstjóra Ísfélagsins, í Kauphallartilkynningu.

Skattahækkanir muni hafa neikvæð áhrif á reksturinn

Fram kemur að félagið hafi fjárfest mikið á yfirstandandi ári, en þrátt fyrir miklar fjárfestingar sé félagið fjárhagslega stöndugt og fyrir hendi væri geta til að fjárfesta og styrkja rekstur félagsins til lengri tíma.

„Miklar hækkanir á sköttum eins og veiðigjaldi og kolefnisgjaldi munu hins vegar hafa mjög neikvæð áhrif á reksturinn strax á næsta ári og öll sú óvissa sem fylgir slíkum skattahækkunum mun óhjákvæmilega hafa áhrif á og draga úr fjárfestingaráhuga sjávarútvegsfélaga að öllu öðru óbreyttu.“

„Tíminn einn mun leiða í ljós hver áhrif þessara illa ígrunduðu skattahækkana verða. Verri samkeppnisstaða sjávarútvegsins er þegar komin fram í þeirri staðreynd að fiskur er nú fluttur óunninn úr landi í meiri mæli en undanfarin ár.“

Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins.

  • Rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi námu 74,7 m.USD og 150,4 m.USD á fyrstu 9 mánuðum ársins. 
  • Hagnaður á rekstri nam 17,9 m.USD á þriðja ársfjórðungi og 8,3 m.USD, fyrstu 9 mánuðina. 
  • EBITDA þriðja ársfjórðungs var 33,1 m.USD eða 44,3%. Á fyrstu 9 mánuðum ársins var EBITDA 50,8 m.USD eða 33,8%. 
  • Heildareignir námu 871,7 m.USD í lok september sl. og var eiginfjárhlutfallið 63,6%. 
  • Nettó vaxtaberandi skuldir voru 193,5 m.USD í lok september sl. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×