Fótbolti

Neyddur á dráttinn en vill frekar sófann og nammi

Sindri Sverrisson skrifar
Ståle Solbakken stýrði Noregi til afar öruggs sigurs í undanriðli fyrir HM í fótbolta. Liðið verður því loksins með á stærsta sviðinu, eftir tæplega 28 ára bið.
Ståle Solbakken stýrði Noregi til afar öruggs sigurs í undanriðli fyrir HM í fótbolta. Liðið verður því loksins með á stærsta sviðinu, eftir tæplega 28 ára bið. Getty

Norðmenn eru á leið á HM karla í fótbolta í fyrsta sinn á þessari öld og því fylgja ákveðnar skyldur.

Landsliðsþjálfari Norðmanna, Ståle Solbakken, er síður en svo hrifinn af því að þurfa að mæta á HM-dráttinn á föstudaginn, þegar í ljós kemur hvernig riðlarnir munu líta út næsta sumar.

Solbakken sendir jafnan aðstoðarmann sinn Brede Hangeland á slíka viðburði en verður að mæta sjálfur til Washington, sjá hvaða lið verða mótherjar Noregs og sjálfsagt svara spurningum fjölmiðla.

„Ég hata þetta. Brede Hangeland hefur séð um alla drætti hingað til. Þjóðadeildina, undankeppni EM, Brede hefur séð um þetta allt. Hann langar í raun mikið til að vera með í þessu og við vorum sammála um að hann skyldi fara, en í þetta sinn er engin undankomuleið. Aðalþjálfarinn verður að mæta,“ sagði Solbakken í hlaðvarpsþætti NRK, Bakrommet.

Solbakken hlakkar sem sagt ekki beinlínis til þess að mæta og spjalla við fólk í Kennedy Center á föstudaginn.

„Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu. Í fyrsta lagi er ég ömurlegur í yfirborðslegu spjalli. Í öðru lagi hef ég engan sérstakan áhuga á þessu. Bara alls ekki. Ég myndi eiginlega frekar vilja liggja í sófanum með bland í poka og Pepsi Max og horfa á dráttinn, í staðinn fyrir að sitja í þessum sal. En þannig verður það ekki“ sagði Solbakken sem reyndi að sleppa við að fara:

„Ég hef reynt allt, og Hangeland vill þetta virkilega, en það var algjört „no-go“ í þetta skiptið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×