Innlent

Með kíló af kókaíni í bak­pokanum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn kom með flugi til landsins í byrjun október. Myndin er úr safni.
Maðurinn kom með flugi til landsins í byrjun október. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fjórtán mánaða fangelsi fyrir innflutning á tæpu kílói af kókaíni. Maðurinn flutti efnin með flugi frá Alicante til Keflavíkurflugvallar og var hann með efnin falin í bakpoka.

Í dómnum segir að maðurinn, sem sé tæplega fimmtugur að aldri, hafi komið með flugi 5. október síðastliðinn. Hann var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnilagabrot, en efnin voru með styrkleika 84 prósent og voru þau ætluð til söludreifingar hér á landi.

Maðurinn játaði sök við þingfestingu og segir að af gögnum verði ekki ráðið að hann hafi verið eigandi efnanna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi. Hann hafi þó samþykkt að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Dómari mat hæfilega refsingu vera fjórtán mánaða fangelsi og komi til frádráttar gæsluvarðhald sem hann hafði sætt frá komu til landsins.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til greiðslu um milljón króna í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×