Fótbolti

Kláruðu leikinn tveimur sólar­hringum eftir að hann hófst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Brynjólfur spilaði allan leikinn, sem hófst á sjöttu mínútu, í dag. Honum tókst ekki að setja mark sitt á hann í 2-0 tapi.
Brynjólfur spilaði allan leikinn, sem hófst á sjöttu mínútu, í dag. Honum tókst ekki að setja mark sitt á hann í 2-0 tapi. Rico Brouwer/Soccrates/Getty Images

Ajax og Groningen áttust við fyrir luktum dyrum í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðdegis. Leikurinn hafði verið flautaður af vegna óláta áhorfenda á sunnudaginn var.

Leikur liðanna var flautaður af á sjöttu mínútu leiksins á sunnudag vegna fjölda blysa áhorfenda í stúkunni sem ætlað var að heiðra minningu látins stuðningsmanns.

Tilraun var gerð til að hefja leikinn á ný um 45 mínútum síðar, án árangurs, þar sem sama blysahafið tók við. Leiknum var því aflýst og frestað.

Liðunum tókst að klára leikinn í dag, fyrir luktum dyrum á Johan Cruyff-vellinum í Amsterdam.

Landsliðsmaðurinn Brynjólfur Willumsson spilaði allan leikinn sem fremsti maður Groningen í 2-0 tapi. 

Belginn Mika Godts og hinn 18 ára gamli Aaron Bouwman skoruðu mörk Ajax í leiknum.

Ajax er eftir sigurinn í 5. sæti deildarinnar með 23 stig en Groningen í 8. sæti með 20 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×