Erlent

Braust inn í vín­búð og „drapst“ á klósettinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Þvottabjörninn virðist hafa gengið berserksgang í vínbúðinni. Hann braut fjölmargar flöskur og fannst svo steinsofandi inn á klósetti.
Þvottabjörninn virðist hafa gengið berserksgang í vínbúðinni. Hann braut fjölmargar flöskur og fannst svo steinsofandi inn á klósetti. Dýraskýli Hanoversýslu í Virginíu

Óprúttinn, grímuklæddur innbrotsþjófur braust um helgina inn í vínbúð í Virginíu í Bandaríkjunum. Þjófurinn er sagður hafa hagað sér dýrslega í versluninni, þar sem hann braut áfengisflöskur og drakk úr þeim af svo mikilli áfergju að hann „drapst“ inni á klósetti í versluninni.

Þar kom svo lögregluþjónn að honum, liggjandi sofandi við hliðina á klósettskálinni.

Segja má að innbrotsþjófurinn hafi ekki verið hefðbundinn en um er að ræða þvottabjörn sem virðist hafa komist inn í vínbúðina með því að komast inn á loft hennar þar sem hann var á ferðinni þegar ein platan gaf sig svo hann féll í gólfið.

Þvottabjörninn braut fjölda áfengisflaska í verslunni og komst hann meðal annars í viskí og drakk nóg af því.

Starfsmenn dýraskýlis í Ashland í Virginíu sögðu frá innbrotsþjófinum á Facebook í gær. Þar kom fram að þvottabjörninn hefði verið mjög ölvaður þegar lögregluþjón bar að garði. Sá flutti dýrið til skýlisins þar sem þvottabjörninn fékk að sofa úr sér.

Honum var svo sleppt úr haldi í kjölfarið og kom þvottabjörninn ósærður frá þessu ævintýri, að þynnku undanskilinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×