Neytendur

Kostnaður við tón­leika út­skýri hátt miða­verð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tónleikar Bubba Morthens verða 5. og 6. júní næsta sumar.
Tónleikar Bubba Morthens verða 5. og 6. júní næsta sumar. Vísir

Ísleifur Þórhallsson hjá Senu segir gríðarlega dýrt að halda tónleika hér á landi sem útskýri miðverð að stórum hluta. Nokkur umræða hefur skapast um stórtónleika Bubba Morthens sem haldnir verða í Laugardalshöll í sumar og þykir sumum miðinn nokkuð dýr. Ódýrasti miðinn á tónleikana kostar 15 þúsund krónur en sá dýrasti 40 þúsund krónur.

Ísleifur, sem kemur ekkert nálægt tónleikum Bubba, er einn reyndasti tónleikahaldari landsins og hann var kallaður til í Bítinu á Bylgjunni í morgun til að ræða þessi mál og hann bendir á að verðlag á Íslandi sé almennt mjög hátt.

„Á þessum tónleikum Bubba þá er bilið mjög breitt. Við höfum verið að gera það og allir tónleikahaldarar að bjóða upp á mjög breitt bil. Það má hafa það í huga að þetta er í gömlu höllinni svo ég reikna með að það séu standandi á gólfinu og sitjandi í stúkunni. Þetta eru hátt í fimm þúsund miðar og þar af eru bara í boði um 1600-1700 sæti. Þannig að þetta er mjög takmörkuð auðlind, ofsalega fá sæti í boði og við erum að tala um tónleika þar sem öll sætin eru seld,“ segir Ísleifur Þórhallsson hjá Senu.

Raunar seldist upp á tónleikana á augabragði svo ákveðið var að halda tvenna tónleika. Þá tekur Ísleifur fram að framboð á tónleikum erlendra listamanna hafi minnkað gríðarlega eftir Covid-faraldurinn.

„Ég var að hugsa til baka eftir Covid, hvað við höfum farið oft í stórtónleika og inn í Höllina. Það eru eiginlega bara tvennir tónleikar. Það eru Backstreet boys og Smashing Pumpkins. Það er af sem áður var. Það er af því að kostnaður hefur hækkað svo svakalega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×