Handbolti

Vals­menn með flotta endur­komu í Kapla­krika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Snær Óskarsson hefur spilað vel síðan að hann kom aftur heim.
Arnór Snær Óskarsson hefur spilað vel síðan að hann kom aftur heim. Getty/Harry Langer

Valsmenn héldu sigurgöngu sinni áfram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld þegar þeir sóttu tvö stig til FH-inga í Hafnarfirði.

Valur vann fimm marka sigur á FH í Kaplarika, 34-29, en FH var með tveggja marka forskot, 27-25, þegar stutt var til leiksloka.

Valsmenn áttu frábæran endakafla, unnu lokamínúturnar 9-2 og tryggðu sér sigurinn.

Þetta er sjötti deildarsigur Valsmanna í röð og þeir enduðu þarna þriggja leikja sigurgöngu FH-liðsins.

Með sigrinum komst Valur upp að hlið Hauka á toppnum en bæði liðin eru með tuttugu stig úr þrettán leikjum, tíu sigra og þrjú töp.

Arnór Snær Óskarsson var frábær hjá Val með tíu mörk og fimm stoðsendingar en Andri Finnsson skoraði sjö mörk og Magnús Óli Magnússon var með fimm mörk.

Birkir Benediktsson skoraði sex mörk fyrir FH og þeir Kristófer Máni Jónasson og Símon Michael Guðjónsson voru báðir með fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×