Innherji

Birgir selur sig út úr Domin­os á Ís­landi í þriðja sinn

Hörður Ægisson skrifar
Birgir Þór Bieldvedt og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir kláruðu nýlega sölu á eftirstandandi hlut þeirra í Dominos á Íslandi. Aðaleigendur Lýsis stækkuðu hlut sinn frekar í skyndibitakeðjunni.
Birgir Þór Bieldvedt og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir kláruðu nýlega sölu á eftirstandandi hlut þeirra í Dominos á Íslandi. Aðaleigendur Lýsis stækkuðu hlut sinn frekar í skyndibitakeðjunni.

Ríflega fjórum árum eftir að fjárfestirinn Birgir Þór Bieldvedt og eiginkona hans komu að því í þriðja sinn að kaupa Dominos á Íslandi í samfloti með öðrum innlendum fjárfestum hafa þau núna selt allan eftirstandandi eignarhlut sinn í félaginu.

Það var snemma árs 2021 sem Domino´s Group í Bretlandi, sem hafði þá haldið utan um eignarhald Dominos á Íslandi í nokkur ár, tilkynnti um sölu á öllu hlutafé skyndibitakeðjunnar hér á landi til fjárfestahóps sem Birgir Þór Bieldvedt leiddi. Kaupverðið á þeim tíma, sem var allt greitt í reiðufé, var 13,7 milljónir sterlingspunda, eða jafnvirði um 2,4 milljarðar króna.

Ásamt Eyju fjárfestingafélagi VI, sem er í jafnri eigu Birgis og eiginkonu hans Eyglóu Björk Kjartansdóttur, samanstóð kaupendahópurinn af félögum í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, Bjarna Ármannssyni og Katrínu Pétursdóttur, aðaleigenda Lýsis. Fjárfestingafélagið Eyja varð stærsti einstaki hluthafinn með um 35 prósenta eignarhlut og Birgir tók í kjölfarið við sem stjórnarformaður Dominos Íslandi.

Tveimur árum síðar, eða í lok ársins 2023, minnkaði fjárfestingafélag þeirra hjóna hlut sinn í PPH, móðurfélaginu utan um rekstur Dominos á Íslandi og fasteignafélaginu BHB fasteignir, þegar það seldi um níu prósenta hlut áfram til eignarhaldsfélagsins Kristins sem er í eigu Guðbjargar og fjölskyldu. Í ársreikningi Eyju má lesa út að söluverðið fyrir þann hlut hafi þá numið um 360 milljónum króna en eftir viðskiptin varð Kristinn ehf. stærsti hluthafinn með um 35 prósenta hlut.

Núna hefur fjárfestingafélagið Eyja hins vegar losað um allan eftirstandandi 25,6 prósenta hlut sinn í Dominos á Íslandi. Í samtali við Innherja staðfestir Birgir að félag þeirra hjóna hafi í októbermánuði selt öll bréf sín í þessari stærstu skyndibitakeðju landsins sem rekur samtals 22 veitingastaði. Kaupandinn var eignarhaldsfélagið Ívar, aðaleigandi Lýsis með um 89 prósenta eignarhlut, en það er í að stærstum hluta í eigu Katrínar Pétursdóttur, forstjóra Lýsis, og dóttur hennar Erlu Katrínu Jónsdóttur. Félag í eigu Gunnlaugs Sævars Gunnlaugssonar, stjórnarformanns Lýsis, heldur síðan utan um ríflega fjórðungshlut í Ívari ehf.

Eftir þessi viðskipti eru félög tengd Katrínu og fjölskyldu í Lýsi orðin stærsti hluthafinn í móðurfélagi Dominos á Íslandi með samtals um 38,5 prósenta eignarhlut. Fyrir átti Lýsi, sem er núna verið að selja til Brims fyrir um þrjátíu milljarða, tæplega 12,9 prósenta hlut í Dominos.

Bjarni tekur við sem stjórnarformaður 

Eftir þær eigendabreytingar sem hafa orðið í félaginu PPH sem heldur utan um Dominos á Íslandi hefur Bjarni Ármannsson, sem ræður yfir 26 prósenta hlut í gegnum fjárfestingafélagið sitt Sjávarsýn, tekið við sem stjórnarformaður. Þau Magnús Sigurðsson, sonur Guðbjargar, og Erla Gunnlaugsdóttir, dóttir Gunnlaugs Sævars, eru áfram í stjórninni en þau Erna Hlíf Jónsdóttir og Gunnlaugur Sævar koma ný inn í stað Birgis og Eyglóar.

Aðspurður vill Birgir ekki tjá sig um söluverðið á eftirstandandi bréfum og segir það sé trúnaðarmál. 

Í reikningum Eyju fjárfestingafélags VI var tæplega 26 prósenta hluturinn í PPH ehf. bókfærður á 353 milljónir í árslok 2024, en fastlega má gera ráð fyrir að hann hafi verið seldur á nokkuð hærra verði sé litið til undurliggjandi afkomu Dominos á Íslandi. Í fyrra námu tekjurnar samtals um 6,7 milljörðum, sem var lítileg aukning frá árinu 2023, og hagnaðurinn fyrir fjármagnsliði og afskriftir var ríflega 500 milljónir. Stjórn félagsins utan um rekstur Dominos samþykkti að greiða út 200 milljónir í arð til hluthafa vegna afkomu ársins 2024.

Birgir segir að hann og Eygló muni núna alfarið einblína á rekstur Joe & The Juice á Íslandi, sem er í eigu þeirra hjóna, ásamt frekari uppbyggingu á Dominos í Skandinavíu. Félag Birgis og Eyglóar fer með meirihluta í Domino´s í Svíþjóð og er jafnframt minnihlutaeigandi í Domino´s í Noregi.

Með útgöngu sinni úr hluthafahópi Dominos á Íslandi þá er Birgir núna í þriðja sinn að selja sig út rekstri félagsins yfir tveggja áratuga tímabil. Hann kom fyrst að stofnun skyndibitakeðjunnar á tíunda áratugnum en á árinu 2005 seldi hann hlut sinn. Nokkrum árum síðar, eða á árinu 2011, komu Birgir og Eygló aftur að félaginu þegar þau keyptu fyrirtækið ásamt meðfjárfestum af Landsbankanum sem hafði tekið það yfir vegna slæmrar skuldastöðu.

Það var síðan á árunum 2016 og 2017 sem þau hjónin seldu félagið á nýjan leik þegar Domino´s Group í Bretlandi keypti það í tveimur mismunandi viðskiptum fyrir samanlagt um átta milljarða miðað við þáverandi gengi krónunnar. Reksturinn gekk hins vegar fremur erfiðlega undir nýju eignarhaldi og var félagið því selt fjórum árum síðar með umtalsverðu tapi til fyrrnefnd íslensks fjárfestahóps fyrir um 2,4 milljarða.


Tengdar fréttir

Seldi Domino's á Íslandi daginn fyrir fimmtugsafmælið

Birgir Þór Bieltvedt er viðskiptamaður ársins að mati dómnefndar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis. Hann og aðrir fjárfestar seldu á árinu rekstur Domino's á Íslandi og nam söluverðið rúmum átta milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×