Enski boltinn

Slot hugsi: Spyr hvort Salah telji sig hafa gert mis­tök

Aron Guðmundsson skrifar
Samband Salah og Slot hefur séð betri daga
Samband Salah og Slot hefur séð betri daga Vísir/Getty

Arne Slot, þjálfari Liver­pool, spyr sig hvort Mohamed Salah sjálfur sé á því að hann hafi gert mistök eftir að hafa farið hamförum í viðtali á dögunum. Eins og við var að búast var hann spurður út í stöðu Salah eftir sigur gegn Inter Milan í kvöld en vildi heldur að spurningarnar snerust um þá leik­menn sem spiluðu leikinn.

Liver­pool vann 1-0 dramatískan úti­sigur gegn Inter Milan í kvöld og það án Mohamed Salah sem var skilinn eftir utan hóps í kjölfar viðtals sem hann veitti blaðamönnum eftir að hafa verið ónotaður varamaður í jafn­tefli Liver­pool gegn Leeds United um síðastliðna helgi.

Salah, eins og frægt er orðið, lét gamminn geisa í viðtalinu, talaði um að verið væri að gera sig að blóra­böggli fyrir slæmu gengi Liver­pool upp á síðkastið og sagði sam­band sitt og Arne Slot, þjálfara liðsins, nær orðið að engu.

Í viðtölum eftir sigur­leikinn í kvöld var Slot spurður út í Salah og hvort at­burðarás síðustu daga hefði haft áhrif á leik­menn Liver­pool.

„Auðvitað hefur mikið verið sagt í tenglum við þetta mál og ég tel að það muni alltaf hafa áhrif á liðið,“ sagði Slot í viðtali eftir sigur gegn Inter Milan í kvöld sem hefði helst viljað að um­ræðan eftir leik tengdist þeim leik­mönnum sem spiluðu leik kvöldsins.

„Ég get vel skilið það þegar að ég mæti á næsta blaða­manna­fund á föstu­daginn kemur að allar spurningarnar þar snúist um Mohamed Salah. Ég tel hins vegar að þessir leik­menn sem spiluðu hér í kvöld verðskuldi að það sé talað um þá.“

Allir geri mistök á ein­hverjum tíma­punkti í sínu lífi.

„En telur leik­maðurinn (Salah) að hann hafi gert mistök? Þá er næsta spurning sú hver eigi nú að eiga frum­kvæði að næsta skrefi. Á það að koma frá mér eða honum? Það er önnur spurning sem þarf að svara. En eins og ég segi ætti fókusinn að vera á leik­mönnunum hér í kvöld, eins og Virgil van Dijk því stuðnings­mennirnir eru hér að syngja lag um hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×