Enski boltinn

„Ekki gleyma mér“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Son Heung-min var hálfklökkur þegar hann kvaddi stuðningsmenn Tottenham formlega í gærkvöldi.
Son Heung-min var hálfklökkur þegar hann kvaddi stuðningsmenn Tottenham formlega í gærkvöldi. Getty/Julian Finney

Það var sérstakur heiðursgestur á leik Tottenham og Slavia Prag á Tottenham-leikvanginum í Meistaradeildinni í fótbolta í gærkvöldi.

Son Heung-Min fékk þá loksins tækifæri til að kveðja stuðningsmenn Tottenham og bað þá um að gleyma ekki tíma sínum hjá Lundúnafélaginu. Suðurkóreska stjarnan yfirgaf enska félagið nokkuð skyndilega í ágúst og lauk þar með áratugalangri dvöl sinni hjá Spurs til að ganga til liðs við Los Angeles FC í Bandaríkjunum.

Son, sem var um tíma fyrirliði Tottenham, var í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Lundúnaliðsins og sneri aftur til Norður-Lundúna til að kveðja formlega.

Hann fór inn á völlinn fyrir upphafsspark leiksins og ávarpaði stuðningsmenn. „Ég vona að þið hafið ekki gleymt mér. Ekki gleyma mér. Ég mun alltaf vera Spurs-maður og ég mun alltaf vera með ykkur,“ sagði Son Heung-Min.

Son fékk afhentan minningargrip af fyrrverandi varnarmanni Tottenham, Ledley King, áður en hann horfði á fyrrum lið sitt sigra Slavia Prag með mörkum úr vítaspyrnum frá Mohammed Kudus og Xavi Simons í seinni hálfleik.

„Það var gott að sjá hann. Ég hitti hann aðallega strax eftir leikinn hérna,“ sagði Thomas Frank, stjóri Tottenham.

„Ég er ánægður með móttökurnar, verðskuldaðar móttökur sem hann fékk, goðsögn hjá Tottenham, sönn Tottenham-goðsögn sem snýr aftur heim. Þannig að ég var mjög ánægður, það var gott að sjá hann. Hann virðist ánægður og hefur komið sér vel fyrir,“ sagði Frank.

Fyrr um þriðjudaginn áritaði Son veggmynd sem hafði verið lokið við fyrir endurkomu hans til Norður-Lundúna. Listaverkið er á Tottenham High Street og þar er hann að lyfta bikar Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili. Þetta er eini titillinn sem hann vann með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×