Fótbolti

Dagur til Kanada „að­eins eldri með barn, hund og vini fyrir lífs­tíð“

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson hefur leikið með Orlando City eftir að hann fór frá Breiðabliki í ársbyrjun 2023.
Dagur Dan Þórhallsson hefur leikið með Orlando City eftir að hann fór frá Breiðabliki í ársbyrjun 2023. Getty/Michael Pimentel

Fótboltamaðurinn Dagur Dan Þórhallsson hefur kvatt Orlando City. Hann verður þó áfram í amerísku MLS-deildinni því kanadíska félagið CF Montréal hefur tryggt sér krafta þessa 25 ára gamla bakvarðar.

Frá þessu er meðal annars greint á heimasíðu MLS-deildarinnar þar sem segir að Orlando fái 500.000 Bandaríkjadali, jafnvirði um 64 milljóna króna, vegna skiptanna og að við það gætu bæst 125.000 dalir.

Samningur Dags við Montréal, sem Víkingurinn Róbert Orri Þorkelsson var áður á mála hjá, gildir út tímabilið 2027-28 með möguleika á árs framlengingu.

„Ég vil bara þakka ykkur fyrir allt sem þið hafið gert fyrir mig og fjölskyldu mína,“ segir Dagur í kveðjubréfi til síns fólks í Flórída á Instagram.

„Ég kom til Orlando sem drengur með stóra drauma um að spila í MLS-deildinni og ég fer héðan enn sem drengur, bara aðeins eldri með yfir 100 leiki fyrir félagið, barn, hund og vini fyrir lífstíð!!

Orlando verður alltaf heimili mitt og fjölskyldu minnar.

Að lokum, til stuðningsmannanna, ég elska ykkur af öllu mínu hjarta❤️ þið tókuð mér opnum örmum frá upphafi og því mun ég búa að það sem eftir er ævinnar,“ segir Dagur.

Hann gekk til liðs við Orlando City í ársbyrjun 2023, frá Breiðabliki, eftir að hafa einnig spilað í Noregi og með Fylki, Keflavík og Haukum hér á landi. Hann skoraði níu mörk og gaf ellefu stoðsendingar í 116 leikjum í öllum keppnum fyrir Orlando.

Dagur á að baki sjö A-landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×