Fótbolti

Brjálaðist og sendi dómarann á sjúkra­hús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ítalska stórblaðið La Gazzetta dello Sport fjallaði um bræðiskast leikmannsins.
Ítalska stórblaðið La Gazzetta dello Sport fjallaði um bræðiskast leikmannsins. @gazzettadellosport

Knattspyrnumaður á Ítalíu gjörsamlega brjálaðist út í dómara leiks. Hann hótaði dómaranum á vellinum fyrst en beið svo færist í hálfleik til að ráðast á hann.

Leikmaðurinn var ævareiður yfir því að hafa fyrst fengið áminningu og síðan verið vísað af velli. Hann mótmælti dómaranum og kom í veg fyrir að leikurinn gæti haldið áfram í nokkrar mínútur.

Eftir að hafa yfirgefið völlinn beið hann eftir hálfleiknum til að ná í dómarann nálægt búningsklefunum. Þar kýldi hann dómarann í andlitið svo hann missti meðvitund. Þetta gerði hann þrátt fyrir að liðsfélagar hans reyndu að draga hann í burtu.

Atvikið átti sér stað í héraðsleik í futsal (innanhússknattspyrnu) milli Calcetto Clark Udine og Manzano C5, í sjöttu umferð C-deildarinnar í Udine.

Sökudólgurinn er leikmaðurinn Grance Shimba Olamba, úr liði Clark. Hann flúði eftir árásina á dómarann Stefano Tomasetig frá Udine-deildinni.

Dómarinn féll í jörðina eftir höggið og rak höfuðið í. Eftir fyrstu læknisaðstoð fór hann á bráðamóttöku en þar kom í ljós að hann ætti að ná sér á nokkrum dögum.

Forseti Clark, Giancarlo Tirindelli, hefur tilkynnt að leikmaðurinn hafi verið rekinn úr félaginu. Íþróttadómstóll mun dæma um hegðun knattspyrnumannsins, en ekki er útilokað að hann verði einnig kærður. Hann verður væntanlega dæmdur í mjög langt bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×