Enski boltinn

Fyrir­liði Newcastle eftir tapið fyrir Sunderland: „Þetta er svo vand­ræða­legt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Guimaraes gat ekki annað en fórnað höndum á Ljósvangi í gær þar sem erkifjendurnir Sunderland og Newcastle United áttust við.
Bruno Guimaraes gat ekki annað en fórnað höndum á Ljósvangi í gær þar sem erkifjendurnir Sunderland og Newcastle United áttust við. getty/Owen Humphreys

Bruno Guimaraes, fyrirliði Newcastle United, sparaði ekki stóru orðin eftir tapið fyrir erkifjendunum í Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Sjálfsmark Nicks Woltemade skildi liðin að í leiknum á Ljósvangi í Sunderland. Svörtu kettirnir eru taplausir í síðustu tíu deildarleikjum gegn Skjórunum.

„Við spiluðum ekki eins og við getum. Þetta er pirrandi og gerir mig reiðan. Frammistaðan var ekki til staðar,“ sagði Bruno eftir leikinn í gær.

„Það er pirrandi fyrir mig að koma hingað en stuðningsmennirnir eiga rétt á að vera pirraðir því það er erfitt að kyngja þessu. Allir komu hingað og vissu hvaða þýðingu þetta hefði fyrir stuðningsmennina. Allt talið í klefanum fyrir leikinn var að gera þetta fyrir stuðningsmennina en við gerðum það ekki. Þetta er svo vandræðalegt. Ég er mjög reiður vegna frammistöðunnar. Stöðugleikinn og hugarfarið er ekki til staðar.“

Newcastle hafði verið á ágætis siglingu fyrir grannaslaginn í gær og fengið tíu stig af tólf mögulegum í fjórum deildarleikjum þar á undan.

Newcastle er í 12. sæti deildarinnar með 22 stig en nýliðar Sunderland eru fimm sætum ofar með 26 stig.


Tengdar fréttir

Sunderland vann nágrannaslaginn fyrir norðan

Nágrannaliðin Sunderland og Newcastle mættust í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í rúman áratug. Svörtu kettirnir báru 1-0 sigur úr býtum í tíðindalitlum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×