Körfubolti

„Auð­vitað var þetta sjokk“

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Helgi Pálsson fór yfir málin í viðtali við Sýn í dag.
Haukur Helgi Pálsson fór yfir málin í viðtali við Sýn í dag. vísir/Sigurjón

Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson, leikmaður Álftaness, segir það hafa verið sjokk að heyra að Kjartan Atli Kjartansson væri hættur sem þjálfari liðsins. Hans verði saknað en nú verði menn að þjappa sér vel saman og finna meiri gleði og baráttu í sínum leik.

Haukur fór yfir málin með Aroni Guðmundssyni á Álftanesi í dag, eftir vægast sagt erfiða helgi fyrir Álftnesinga sem máttu þola stærsta tap í sögu efstu deildar á föstudaginn áður en Kjartan hætti svo í kjölfarið.

„Ég er búinn að heyra í Kjartani og allt í góðu þannig séð. Svona er bara þetta líf, eins og við þekkjum sem erum í þessu. Við munum sakna hans en ég veit að við getum alltaf hringt í hann ef það er eitthvað,“ segir Haukur en viðtalið við hann má sjá hér að neðan.

Klippa: Haukur Helgi fór yfir erfiða daga á Álftanesi

Álftnesingar hafa haft lítinn tíma til að jafna sig á áfallinu sem brotthvarf Kjartans er því þeir mæta Stjörnunni í miklum grannaslag í VÍS-bikarnum í kvöld. Hjalti Þór Vilhjálmsson, sem var aðstoðarmaður Kjartans, verður þar við stjórnvölinn.

Kjartan kaus að hætta eftir 137-78 tapið á heimavelli gegn Tindastóli á föstudagskvöld.

„Það var bara fundur daginn eftir leik og þá var okkur sagt að hann hefði sagt upp. Maður auðvitað virðir það en auðvitað var þetta sjokk. Þetta var þjálfarinn okkar og maður vill hafa alla með. Við þjöppum okkur saman og þetta getur verið spark í rassinn fyrir liðið,“ segir Haukur.

„Gengið er búið að vera upp og ofan. Við byrjuðum ágætlega en svo hefur þetta verið dálítið þungur róður en þannig er þetta bara, við trúum á verkefni og trúum á hópinn. Með það er ég alltaf jákvæður, á að það [gengið] breytist,“ segir Haukur sem ítrekar að Kjartan eigi mikið hrós skilið fyrir sinn þátt í miklum uppgangi Álftaness, sem hann kom upp í efstu deild í fyrsta sinn.

„Hann á hrikalega mikinn þátt í uppbyggingunni hér á Álftanesi. Ég trúði á hans sýn með hvað ætti að gera hérna og langaði að taka þátt í því. Ég er því þakklátur fyrir hann og hér líður öllum eins. Hann hefur unnið hrikalega mikið verk hérna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×