Innlent

Tuttugu þúsund fiskar drápust á Tálkna­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Tálknafirði. Myndin er úr safni.
Frá Tálknafirði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Um tuttugu þúsund fiskar drápust í fiskeldi í Tálknafirði á föstudag. Lögreglu á Vestfjörðum barst tilkynning þessa efnis fyrir helgi.

Lögregla segir frá þessu í tilkynningu á Facebook í morgun þar sem segir frá verkefnum liðinnar viku. Þar kemur fram að fiskarnir hafi drepist vegna rafmagnsleysis.

Í færslunni segir enn fremur að í liðinni viku hafi tveir ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur í þremur málum.

„Einn þeirra ók á 139 km hraða á klst. í Steingrímsfirði en í hinum tilvikunum, sem bæði voru í Bolungarvíkurgöngum, með nokkurra daga millibili, var um sama ökumanninn að ræða.

Á þriðjudag var tilkynnt um brotnar rúður í bifreiðum á bifreiðastæðinu við flugstöðina á Ísafirði. Svo virðist sem möl hafi fokið á bifreiðarnar og brotið rúðurnar.

Tvö umferðaóhöpp urðu í umdæminu í vikunni. Á Vestfjarðavegi rákust tvær bifreiðar saman. Ekki urðu slys á fólki en bifreiðarnar voru óökufærar á eftir.

Í hinu tilvikinu valt vöruflutningabifreið með eftirvagn á hliðina á Barðarstrandarvegi við Patreksfjörð Björgunarsveit affermingu vagnsins svo unnt væri að koma honum á veginn á ný en bifreiðin var óökufær eftir óhappið.

Á föstudag fékk lögreglan á Patreksfirði tilkynningu um að 20 þúsund fiskar hafi drepist í fiskeldi í Tálknafirði. Óhappið varð vegna rafmagnsleysis.

Aðfaranótt sunnudags var nokkrum unglingum, sem voru á götum úti, ekið heim en útivistartími þeirra er til 22. Útivistartími barna og ungmenna heldur fullu gildi þrátt fyrir að stutt sé í jólaleyfi í grunnskólum,“ segir í færslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×