Innlent

Hjálmar gefur ekki kost á sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hjálmar Sveinsson segir skilið við pólitíkina.
Hjálmar Sveinsson segir skilið við pólitíkina. Vísir/Vilhelm

Hjálmar Sveinsson borgarfulltrúi Samfylkingarinnar frá árinu 2010 hefur ákveðið að segja staðar numið í stjórnmálum. Hann gefur ekki kost á sér í komandi borgarstjórnarkosningum í maí.

Hjálmar upplýsti um ákvörðun sína í færslu á Facebook. 

„Ég er þakklátur öllum þeim Reykvíkingum sem hafa kosið Samfylkinguna í undanförnum fernum kosningum. Við höfum sett fram skýra stefnu um framtíð Reykjavíkur, að hún breytist smám saman úr dreifðri bílaborg í þétta, vistvæna og mannvæna borg,“ segir Hjálmar. 

Hann nam heimspeki, bókmenntir og þýsk fræði í háskóla og starfaði lengi við fjölmiðla, meðal annars við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu. Þar var hann einn umsjónarmanna Spegilsins um tíma.

Hann sneri sér að stjórnmálunum árið 2010 og hefur verið borgarfulltrúi Samfylkingarinnar síðan. Þar hefur hann lagt mikla áherslu á þéttingu byggðar en hann er sjálfur mikill útivistarmaður, hlaupari og hjólreiðamaður.

„Við höfum líka lagt mikla áherslu á samvinnu borgarinnar við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög. Þessi stefna hefur orðið til þess, að mínu mati, að Samfylkingin hefur verið leiðandi flokkur í borgarstjórn síðustu 16 árin. Vonandi verður svo áfram. Ég sný mér að öðru, en verð alltaf ákafur talsmaður stefnunnar,“ segir Hjálmar í tilkynningu sinni.

Hjálmar er annar borgarfulltrúi flokksins sem skilur við stjórnmálin. Sabine Leskopf tilkynnti á dögunum að hún myndi ekki gefa áframhaldandi kost á sér. Flokknum barst á móti liðsauki í gær þegar Dóra Björt Guðjónsdóttir, áður Pírati, tilkynnti um vistaskipti sín yfir í Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×