Sport

Sagði látna systur sína hafa tryggt sigurinn ó­trú­lega

Sindri Sverrisson skrifar
Ricky Evans naut þess í botn að vinna sigurinn magnaða í dag.
Ricky Evans naut þess í botn að vinna sigurinn magnaða í dag. Getty/John Walton

Einn fjörugasti og skemmtilegasti keppandinn á HM í pílukasti er klárlega „Rapid“ Ricky Evans sem í dag vann magnaðan sigur á James Wade, sjöunda manni heimslistans. Hann missti yngri systur sína í vor og sagði hana hafa séð um sigurkastið.

Evans vann leikinn 3-2 en oddasettið var óhemju spennandi, fór í framlengingu og endaði ekki fyrr en Evans tókst að taka út 99 í 12 pílna legg og vinna settið 6-4.

Áður hafði honum orðið uppsigað við dómarann sem refsaði Evans fyrir ólöglegt kast, í stöðunni 2-2 í oddasettinu, en eftir klúður Wade fékk hann annað tækifæri í þeim legg, nýtti það og gaf dómaranum þumalfingur með kaldhæðnislegum hætti.

Það vantaði því ekkert upp á skemmtunina í sigri Evans, eða hreinlega frá því að hann hóf göngu sína upp á sviðið fyrir leik, og hann var vel meðvitaður um það á blaðamannafundi eftir sigurinn.

„Ég er furðulegur en fæ fólk til að horfa“

„Pælið í að mæta á leik í pílu og vinna 3-0 – hver er tilgangurinn? Höfum þetta áhugavert!“ sagði Evans ánægður með sig.

„Hver er tilgangurinn í að spila leiðinlega? Ég segi það á hverju ári: Ég er furðulegur en ég fæ fólk til að horfa!

Ég var búinn að hugsa með mér að tækifærið væri farið. Að Wadey myndi vinna núna. En ég er enn inni. Áfram svona!“

Eins og fyrr segir missti Evans systur sína, Elishu, sem lést skyndilega í mars á þessu ári aðeins 35 ára að aldri:

„Systir mín náði þessu útskoti fyrir mig,“ sagði Evans um tvöfaldan sextán sem tryggði honum endanlega sigurinn.

HM í pílukasti er í fullum gangi og er hægt að fylgjast með beinni útsendingu kvöldsins á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×