Handbolti

Haukur náði hundrað og hundrað fyrir EM

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Þrastarson heldur áfram að gera góða hluti fyrir Rhein-Neckar Löwen.
Haukur Þrastarson heldur áfram að gera góða hluti fyrir Rhein-Neckar Löwen.

Haukur Þrastarson hefur farið á kostum fyrir lið sitt Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi á leiktíðinni og er í sérflokki í þýsku deildinni þegar kemur að fjölda stoðsendinga.

Haukur fór fyrir liði Löwen í kvöld í 30-26 útisigri gegn Blæ Hinrikssyni og félögum í botnliði Leipzig.

Selfyssingurinn skoraði fimm mörk í kvöld og hefur því skorað akkúrat hundrað mörk í deildinni hinga til. 

Hann er hins vegar líka kominn með hundrað stoðsendingar, og rúmlega það, því eftir átta slíkar í kvöld hefur Haukur átt 102 stoðsendingar í vetur. Sannarlega magnaður árangur.

Gísli Þorgeir Kristjánsson kemur næstur á stoðsendingalista deildarinnar, með 88 hjá Magdeburg eftir að hafa átt níu stoðsendingar í kvöld.

Í kvöld fara fram síðustu leikirnir fyrir langt hlé í þýsku deildinni vegna EM í janúar, og verður næsta umferð ekki fyrr en 10. febrúar. Haukur er á leið til Íslands þar sem landsliðið hefur formlegan undirbúning sinn fyrir EM næsta föstudag, 2. janúar.

Löwen fer í hléið í 7. sæti með 22 stig eftir 19 umferðir, þremur stigum á eftir næsta liði sem er Gummersbach. Leipzig er hins vegar í miklum vandræðum með aðeins einn sigur og samtals fimm stig, á botni deildarinnar, fimm stigum frá næsta örugga sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×