Körfubolti

„Ef ég væri jafn­gamall og hún væri ekki séns að ég væri að setja þetta skot ofan í“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hulda María Agnarsdóttir setti niður eftirminnilegt skot undir lok oddaleiks Hauka og Njarðvíkur um Íslandsmeistaratitilinn í vor.
Hulda María Agnarsdóttir setti niður eftirminnilegt skot undir lok oddaleiks Hauka og Njarðvíkur um Íslandsmeistaratitilinn í vor. vísir/hulda margrét

Í kvöld verður leið kvennaliðs Hauka í körfubolta að Íslandsmeistaratitlinum síðasta vor rifjuð upp. Í Íslandsmeistaraþættinum verður meðal annars rætt um stórt augnablik í oddaleik Hauka og Njarðvíkur.

Haukar urðu Íslandsmeistarar í fimmta sinn eftir sigur á Njarðvík í oddaleik á Ásvöllum, 92-91.

Þóra Kristín Jónsdóttir kom Haukum í 79-73 með þriggja stiga körfu þegar hálf mínúta var eftir. Brittany Dinkins minnkaði muninn með þristi og hin sautján ára Hulda María Agnarsdóttir setti svo annan þrist skömmu síðar, jafnaði í 79-79 og tryggði Njarðvíkingum framlengingu.

„Þóra setur þrist og kemur okkur yfir þegar einhverjar þrjátíu sekúndur voru eftir. Ég hélt að þetta væri komið. Þetta var það hættulega, að halda að þetta væri komið. En manni leið virkilega vel með þennan þrist,“ sagði Emil Barja, þjálfari Hauka, í Íslandsmeistaraþættinum.

Klippa: Íslandsmeistaraþáttur Hauka 2025

„Síðan taka þeir síðasta innkastið og einhvern veginn stendur Hulda galopin við þriggja stiga línuna,“ rifjaði Þóra upp.

„Þvílíkt hrós á hana að setja þetta skot ofan í til að koma þessu í framlengingu. Ef ég væri jafngamall og hún væri ekki séns að ég væri að setja þetta skot ofan í,“ sagði Emil um skotið hjá Huldu.

Haukar höfðu svo betur í framlengingunni, 13-12, og tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sjö ár.

Brot úr Íslandsmeistaraþætti Hauka má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Íslandsmeistaraþáttur Hauka verður sýndur klukkan 20:00 á Sýn Sport Ísland í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×