Fótbolti

Elsti at­vinnu­maður heims fer í nýtt lið

Sindri Sverrisson skrifar
Kazuyoshi Miura lætur engan bilbug á sér finna og ætlar að spila sem atvinnumaður fram til sextugs.
Kazuyoshi Miura lætur engan bilbug á sér finna og ætlar að spila sem atvinnumaður fram til sextugs. Getty/Hiroki Watanabe

Japaninn Kazuyoshi Miura, sem á sínum tíma skoraði 55 mörk í 89 landsleikjum, verður 59 ára gamall í febrúar en lætur það ekki stoppa sig í að halda áfram ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta.

Miura er elsti atvinnumaður heims og hefur spilað sem slíkur síðan hann hóf ferilinn með brasilíska liðinu Santos, árið 1986. Hann hefur sagst ætla sér að spila fram yfir sextugt.

Miura hefur nú verið lánaður til japanska 3. deildarliðsins Fukushima United eftir að hafa varið síðustu leiktíð að láni hjá Atletico Suzuka í 4. deildinni, þar sem hann lék alls 69 mínútur í sjö leikjum en náði þó ekki að skora.

„Ástríða mín fyrir fótboltanum breytist ekki, sama hversu gamall ég verð,“ sagði Miura sem á nú að baki 40 leiktíðir sem fótboltamaður.

„Ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri. Ég lofa að leggja allt í sölurnar til þess að hjálpa liðinu. Sköpum söguna saman!“ sagði Miura.

Þetta verður fjórða lánsdvöl hans frá árinu 2022, frá B-deildarliði Yokohama FC sem fékk Miura árið 2005. Hann lék síðast með Yokohama árið 2020.

Auk þess að spila í Japan og Brasilíu hefur Miura spilað með liðum á Ítalíu, í Króatíu og Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×