Fótbolti

Nýi þjálfarinn fær strax að njóta krafta Orra

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson hefur átt afar erfitt ár hvað meiðsli varðar.
Orri Steinn Óskarsson hefur átt afar erfitt ár hvað meiðsli varðar. Getty/Juan Manuel Serrano Arce

Það er loksins farið að rofa til hjá landsliðsfyrirliðanum Orra Steini Óskarssyni sem misst hefur af öllu haustinu vegna meiðsla. Hann gæti snúið aftur til leiks á sunnudaginn, gegn Atlético Madrid, undir stjórn nýs þjálfara Real Sociedad í spænsku 1. deildinni í fótbolta.

Orri náði bara að spila fyrstu þrjá leiki tímabilsins, í ágúst, og skora eitt mark áður en hann meiddist alvarlega í læri.

Hann missti því af allri undankeppni HM með íslenska landsliðinu, eftir að hafa verið gerður að fyrirliða þess í byrjun árs þegar Arnar Gunnlaugsson tók við, sem og af fjölmörgum leikjum með Real Sociedad.

Orri hefur sömuleiðis ekkert getað gert við slæmu gengi Sociedad sem er aðeins í 16. sæti með 17 stig eftir 17 umferðir, tveimur stigum frá fallsæti.

Nýr þjálfari er nú tekinn við liðinu, hinn bandaríski Pellegrino Matarazzo, og samkvæmt frétt spænska stórmiðilsins AS getur hann nýtt krafta Orra strax í fyrsta leik á sunnudaginn. Orri hafi verið byrjaður að æfa í síðustu viku Sergio Francisco í starfi en þurft meiri tíma og ekki verið í hópnum sem mætti Levante í síðasta leik fyrir jólafríið, 20. desember.

AS segir að nýja þjálfarateymið hafi verið að prófa sig áfram með 4-2-3-1 leikkerfi sem sé talsvert frábrugðið 4-3-3 kerfinu sem forverar Matarazzo hafi nýtt.

Með innkomu Orra vakni nú spurningin um hvernig stillt verði upp á toppnum, þar sem reynsluboltinn Mikel Oyarzabal og Orri berjist um fremstu stöðuna. Oyarzabal er fyrirliði liðsins og hefur verið helsti markaskorari þess í vetur, með fimm mörk þrátt fyrir að missa af þremru deildarleikjum og bikarleik vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×