Erlent

Búið að bera kennsl á alla sem létust í brunanum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsókn á brunanum stendur yfir.
Rannsókn á brunanum stendur yfir. Getty/Harold Cunningham

Búið er að bera kennsl á alla þá sem létust í eldsvoðanum sem átti sér stað á skemmtistað á Crans-Montana skíðasvæðinu í Sviss á gamlárskvöld. Fjörutíu létust í eldsvoðanum og fjöldi særðist alvarlega.

Margir látnu voru frá Sviss, Frakklandi og Ítalíu og undir átján ára. Aðallega virðist hafa verið um að ræða fólk undir þrítugu. Fjöldi safnaðist saman í Crans-Montana í gær til að minnast látnu og þá var gengið að skemmtistaðnum eftir messu í Chapelle St-Christophe.

Yfirvöld telja að eldur hafi kviknað í loftinu út frá blysum sem var dreift af starfsmönnum staðarins. Rannsókn miðar meðal annars að því að athuga hvort hljóðeinagrandi efni í loftinu hafi uppfyllt kröfur, hvort notkun blysana innandyra var heimil og hvort neyðarútgangar voru í samræmi við reglugerðir.

Greint hefur verið frá því að 119 hafi slasast í eldsvoðanum. Margir eru sagðir hafa hlotið „afmyndandi“ brunaáverka og þá voru nokkrir fluttir til nágrannaríkja Sviss, þar sem brunadeildir þar gátu ekki annast alla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×