Enski boltinn

Fjórðungur fé­laganna í ensku úr­vals­deildinni skipt um stjóra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þótt árið 2026 sé aðeins fimm daga gamalt hafa bæði Enzo Maresca og Ruben Amorim verið reknir úr störfum sínum á því.
Þótt árið 2026 sé aðeins fimm daga gamalt hafa bæði Enzo Maresca og Ruben Amorim verið reknir úr störfum sínum á því. getty/Nick Potts

Eftir tuttugu umferðir hafa fimm af tuttugu félögum í ensku úrvalsdeildinni rekið knattspyrnustjóra. Eitt þeirra hefur gert tvær stjórabreytingar.

Ruben Amorim var sagt upp störfum hjá Manchester United í morgun, eftir fjórtán mánaða starf.

Portúgalinn er sjötti stjórinn sem missir starfið sitt í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Alls hefur fjórðungur félaganna í deildinni skipt um stjóra.

Þann 9. september varð Nuno Espírito Santo fyrsti stjóri tímabilsins til að verða rekinn þegar Nottingham Forest lét hann fara.

Graham Potter tók hatt sinn og staf hjá West Ham United 27. september og sama dag tók Nuno við Hömrunum.

Ange Postecoglou var ráðinn stjóri Forest í stað Nunos en entist ekki lengi í starfi og var látinn taka pokann sinn 18. október.

Wolves, botnlið ensku úrvalsdeildarinnar, rak Vítor Pereira 2. nóvember og réði Rob Edwards tíu dögum seinna.

Á nýársdag yfirgaf Enzo Maresca Chelsea og nú í dag hlaut Amorim sömu örlög hjá United. Chelsea og United eiga enn eftir að ráða eftirmenn þeirra Marescas og Amorims.

Calum McFarlene stýrði Chelsea í 1-1 jafnteflinu við Manchester City í gær. Fastlega er gert ráð fyrir því Liam Rosenior taki við Chelsea. Hann er stjóri Strasbourg í Frakklandi en eigendur þess eru þeir sömu og hjá Chelsea.

Ýmsir hafa verið orðaðir við starfið hjá United, meðal annars Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, áðurnefndur Maresca og Gareth Southgate. Darren Fletcher tók tímabundið við United og stýrir liðinu gegn Burnley á miðvikudaginn.

Á síðasta tímabili voru sjö stjórar reknir í ensku úrvalsdeildinni. Southampton gerði tvær stjórabreytingar og United, Leicester City, Wolves, West Ham og Everton eina hvert félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×