Enski boltinn

Greindi sjálfur frá því að hann tæki við Chelsea

Sindri Sverrisson skrifar
Liam Rosenior hefur stýrt liði Strasbourg en er nú nýr stjóri Chelsea.
Liam Rosenior hefur stýrt liði Strasbourg en er nú nýr stjóri Chelsea. Getty/Ross MacDonald

Hinn 41 árs gamli Englendingur Liam Rosenior greindi frá því sjálfur í dag að hann hefði samþykkt að verða næsti stjóri Chelsea, eftir að Enzo Maresca var rekinn á nýársdag.

Uppfært klukkan 10:45 - Chelsea hefur nú staðfest ráðningu Roseniors og er samningur hans við félagið til sex ára, eða til ársins 2032.

Rosenior var strax nefndur til sögunnar sem líklegasti arftaki Maresca en hann hefur stýrt liði Strasbourg sem er í eigu sömu eigenda og Chelsea.

„Ég get ekki sleppt þessu tækifæri til að koma til svona ótrúlegs félags, með ótrúlegan hóp sem vann heimsmeistaramót félagsliða,“ sagði Rosenior í dag, á blaðamannafundi í Frakklandi.

„Ég hef ekki skrifað undir neitt. Allt hefur verið samþykkt og þetta verður eflaust frágengið á næstu klukkutímum.

Ég er hér vegna þess að ég ann þessu félagi og fannst réttast að svara ykkar spurningum, augliti til auglitis, áður en ég held áfram,“ sagði Rosenior í Strasbourg í dag.

Rosenior stýrði Hull City frá 2022-24 en tók svo við Strasbourg í Frakklandi sumarið 2024, af Patrick Vieira. Undir hans stjórn endaði Strasbourg í 7. sæti frönsku 1. deildarinnar og komst í Sambandsdeild Evrópu þar sem liðið endaði efst í deildarkeppninni, eftir 3-1 sigur gegn Breiðabliki í desember.

Næsti leikur Chelsea er Lundúnaslagur við Fulham annað kvöld. Liðið situr í 5. sæti með 31 stig, sautján stigum frá toppliði Arsenal, eftir fjóra leiki í röð án sigurs. Chelsea spilar svo bikarleik við Charlton á laugardagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×