Sport

Auð­mjúkur nýr stjóri Chelsea

Stefán Árni Pálsson skrifar
Liam Rosenior á hliðarlínunni í leik Strasbourg gegn Lyon.
Liam Rosenior á hliðarlínunni í leik Strasbourg gegn Lyon. vísir/getty

„Þetta er mikill heiður og ég er mjög auðmjúkur að fá tækifæri til að verða stjóri Chelsea,“ segir hinn 41 árs gamli Englendingur Liam Rosenior í samtali við BBC en hann hefur skrifað undir fimm og hálfs árs samning við enska knattspyrnufélagið og tekur við liðinu af Enzo Maresca sem var rekinn á nýársdag.

„Að fá þetta traust skiptir mig miklu máli og vil ég fá að þakka öllum sem komu að þessari ákvörðun og sérstaklega því fólki sem hafði trú á mér. Ég mun leggja mig allan fram til að klúbburinn komist á þann stað sem hann á heima.“

Rosenior stýrði Hull City frá 2022-24 en tók svo við Strasbourg í Frakklandi sumarið 2024, af Patrick Vieira. Undir hans stjórn endaði Strasbourg í 7. sæti frönsku 1. deildarinnar og komst í Sambandsdeild Evrópu þar sem liðið endaði efst í deildarkeppninni, eftir 3-1 sigur gegn Breiðabliki í desember. Næsti leikur Chelsea er Lundúnaslagur við Fulham annað kvöld. Liðið situr í 5. sæti með 31 stig.

„Ég gat ekki hafnað þessu tækifæri, að taka við svona risafélagi og þessum spennandi hópi,“ segir Rosenior sem tekur með sér aðstoðarmenn sína frá Strasbourg, þá Kalifa Cisse, Justin Walker og Ben Warner og mynda þeir saman teymi Chelsea á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×