Körfubolti

„Skita“ olli því að leik­maður Tinda­stóls varð eins og Tom Hanks í The Terminal

Aron Guðmundsson skrifar
Ivan Gavrilovic, leikmaður Tindastóls, þurfti að fara löngu leiðina heim til Íslands eftir að hafa verið meinað að fara inn í Kósovó þar sem Tindastóll átti leik í ENBL deildinni í körfubolta. Stólunum hefur gengið frábærlega í deildinni til þessa.
Ivan Gavrilovic, leikmaður Tindastóls, þurfti að fara löngu leiðina heim til Íslands eftir að hafa verið meinað að fara inn í Kósovó þar sem Tindastóll átti leik í ENBL deildinni í körfubolta. Stólunum hefur gengið frábærlega í deildinni til þessa. Vísir/Samsett

Tindastóll varð á dögunum fyrsta ís­lenska körfu­bolta­liðið í tuttugu ár til þess að komast áfram í sex­tán liða úr­slit í Evrópu­keppni félagsliða. Arnar Guðjóns­son, þjálfari liðsins, segir gengi þess betra en reiknað var með. „Skita“ í að­draganda síðasta leiks í Kó­sovó dregur ekki úr þeirri góðu upp­lifun sem leik­menn og þjálfarar hafa af ENBL deildinni.

Endur­komu­sigur gegn Sigal Prist­hina frá Kó­sovó í fram­lengdum leik í deildar­keppni ENBL deildarinnar sá til þess að Tindastóll tryggði sér sæti í útsláttar­keppni deildarinnar þegar enn eru tvær um­ferðir eftir þar.

Stólarnir eru öruggir með að enda í einu af sex­tán efstu sætum deildarinnar sem tryggir þátt­tökurétt í útsláttar­keppninni en hafa enn að miklu að keppa í deildar­keppninni. Gengi liðsins hefur verið betra en búist var við fyrir mót.

„Ótrú­lega skemmti­leg upp­lifun og betri en við kannski reiknuðum með,“ segir Arnar, þjálfari Tindastóls í sam­tali við Vísi. „Við vorum að láta okkur dreyma um þrjá sigra, vissum að við værum með betra lið en lið Keila frá Eist­landi og Gim­le BK frá Noregi en árangurinn á móti hinum liðunum er betri en við reiknuðum með.

Upp­runa­lega mark­miðið var að tryggja okkur sæti á meðal efstu sex­tán liðanna, nú er það komið og næsta skref að reyna enda í einu af efstu átta sætum deildarinnar þannig að við fáum heima­vallarrétt í útsláttar­keppninni. Við eigum tvo leiki eftir í deildar­keppninni, einn sigur­leikur til viðbótar mun lík­lega tryggja okkur eitt af efstu átta sætunum, ein­beiting okkar liggur þar.“

Þakklátur keppinautunum hér heima

Það að taka þátt í þessu ævintýri hlýtur að vera ótrú­lega góð reynsla fyrir þjálfara­t­eymi, leik­menn og félagið í heild sinni?

„Þetta er bara ótrú­lega gaman og ég held að strákarnir séu mjög hrifnir af þessu. Þessi ferð okkar til Kó­sovó núna í síðustu um­ferð var alveg æðis­leg. Hún var rosa vel skipulögð, svona fyrir utan að missa Ivan þá gekk gekk skipu­lagið upp á tíu. Þægi­legt ferðalag svona miðað við hvað það var langt. Ég vil líka koma þökkum á fram­færi til Kefla­víkur sem samþykktu að færa deildar­leik sinn við okkur sem átti að fara fram í gær. 

Ég vil þakka þeim fyrir það því það er ekkert sjálfgefið að lið séu til­búin í svo­leiðis hluti en bæði Kefla­vík og svo Valur fyrr á tíma­bilinu voru til í að að­stoða okkur með þessum hætti. Þó maður sé á endanum að keppa við þessi lið þá er allt í lagi að þakka þeim fyrir til­lits­semina því ég held það sé gott fyrir ís­lenskan körfu­bolta að við séum að þessu.“

Eins og Tom Hanks í The Terminal

Arnar snertir þarna á máli Ivan Gavrilo­vic, Serbans í leik­manna­hópi Tindastóls sem fékk ekki leyfi til að koma inn í Kó­sovó en það andar köldu milli Kó­sovó og Serbíu. Kósóvó lýsti yfir ein­hliða sjálf­stæði frá Serbíu 17. febrúar 2008. Meiri­hluti ríkja heims hefur viður­kennt sjálf­stæði Kósóva en Serbar telja landið áfram vera sitt landsvæði.

Það eru hins vegar mistök af hálfu Tindastóls sem ollu því að Ivan fékk ekki inn­göngu í landið.

„Það er sam­komu­lag á milli Kó­sovó og Serbíu varðandi það að Serbar og Kósóvar þurfi að vera með ákveðin leyfi og persónu­skil­ríki til þess að komast inn í land hvors annars. Hvorki við né Ivan vorum nægi­lega vakandi varðandi þetta ferli. Þetta var bara skita af okkar hálfu, við hefðum geta komið honum inn í landið hefðum við verið meira á tánum.“

Ivan hafði flogið alla leið með liði Tindastóls til Pristína, höfuð­borgar Kó­sovó, þegar að þetta komst upp.

„Við vorum bara á flug­vellinum í Kó­sovó þegar að honum er meinaður að­gangur inn í landið og þess í stað flogið til Tyrk­lands þaðan sem við höfðum komið á leið okkar til Kó­sovó frá Ís­landi. Honum er flogið þangað, síðan til Póllands, svo Þýska­lands og á endanum til Ís­lands. Hann var kominn heim rétt á undan okkur. Hann var eins og Tom Hanks í myndinni The Terminal, bjó á flug­völlum í fjóra daga blessaður. Þetta var bara skita hjá okkur, það eru bara öðru­vísi reglur í gildi milli Serbíu og Kó­sovó. Þetta eru ekki nánustu sam­félögin.“

Tom Hanks átti stjörnuleik í kvikmyndinni The Terminal þar sem að hann lék mann frá ríki í Austur-Evrópu sem varð strandaglópur á JFK flugvellinum í Bandaríkjunum.

En mun gott gengi Tindastóls í ENBL deildinni til þessa verða til þess að önnur ís­lensk lið horfi til þess að gera sig gildandi í keppninni á næstu árum?

„Ég veit það ekki og erfitt að svara fyrir það hvað hentar öðrum liðum að gera. Þessi keppni hentar ís­lenskum liðum vel. Sér­stak­lega þegar kemur að því að spila sína heima­leiki, við erum ekki fastir í því að þurfa leigja íþrótta­hús í Reykja­vík til þess að fá leyfi til þess að keppa. Heldur fáum við leyfi til þess að spila okkar Evrópu­leiki í Síkinu á Sauðárkróki. Það er kannski helsta ástæðan fyrir því að ENBL deildin er góð keppni fyrir okkur.“

Leitaði í reynslubanka bróður síns

Úr­slitin innan vallar í Evrópu hafa verið góð en álagið er sömu­leiðis mikið á liði Tindastóls sem berst á öllum vígstöðvum bæði hér heima og í Evrópu, ferðalögin mörg og sum hver löng og ströng. Arnar hefur leitað í reynslu­banka kollega sinna í Evrópu sem og bróður síns sem hafa verið í svipaðri stöðu.

„Það hefur verið bara skemmti­leg áskorun. Ég bý aðeins að því að bróðir minn hefur gengið í gegnum svipaðan pakka sem leik­maður Víkings Reykja­víkur í fót­boltanum og þeirra Evrópu­brölti. Ég hef aðeins talað við hann um það hvernig þeir gera þetta. Svo hef ég leitað í reynslu­banka annarra þjálfara sem maður þekkir til í Evrópu­boltanum og hafa verið með sín lið í svona þéttu leikjaprógrami.“

Helgi Guðjónsson, leikmaður Víkings Reykjavíkur er bróðir Arnars Guðjónssonar, þjálfara Tindastóls.vísir/Hulda Margrét

„Þá hefur fólkið hér hjá félaginu gert vel sem og Grind­víkingar með því að hýsa okkur. Þar af leiðandi hefur okkur tekist að fækka ferðalögunum og ekki þurft að fara heim á Sauðárkrók eftir Evrópu­leik þegar að stutt er í næsta úti­leik fyrir sunnan í Bónus deildinni. Í svo­leiðis aðstæðum höfum við fengið að halda til í Grinda­vík. Það hefur hjálpað mikið. Svo erum við með mjög góðan styrktarþjálfara sem hefur frætt sig mjög vel í því hvernig sé best að stýra álaginu í svona aðstæðum. Þetta er bara skemmti­leg áskorun sem krefst öðru­vísi undir­búnings.“

Tindastóll tekur á móti Dina­mo Za­greb í Síkinu í næstu um­ferð ENBL deildarinnar þann 20.janúar næst­komandi. Þátt­töku liðsins í deildar­keppninni lýkur svo með heima­leik gegn liði Brussels frá Belgíu þann 10.febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×