Lífið

Enn ó­víst hvað verður um Söngvakeppnina

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
VÆB-bræðurnir unnu Söngvakeppnina með stæl í fyrra.
VÆB-bræðurnir unnu Söngvakeppnina með stæl í fyrra. Vísir/Hulda Margrét

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort Söngvakeppnin verður haldin eftir að framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins tók ákvörðun um að Ísland verði ekki með í Eurovision í vor. Dagskrárstjóri Rúv segir málið í vinnslu og að það muni skýrast á næstunni hvort og þá á hvaða forsendum Söngvakeppni sjónvarpsins verði haldin.

Það ríkti mikil spenna fyrir fund stjórnar Ríkisútvarpsins sem fram fór 10. desember síðastliðinn þar sem til stóð að örlögin myndu ráðast um þátttöku Íslands í Eurovision. Þátttöku Íslands var mótmælt og Ríkisútvarpið var hvatt til að taka ekki þátt í keppninni í ár eftir að fyrir lá að Ísrael myndi fá að vera með. Fyrir stjórnarfundinn hafði framkvæmdastjórn Rúv hins vegar tekið sjálfstæða ákvörðun um að Ísland yrði ekki með, ákvörðun sem útvarpsstjóri og stjórnarformaður Rúv upplýstu fjölmiðla um að loknum stjórnarfundinum.

Þá lá hins vegar ekki fyrir hvað yrði um Söngvakeppnina, sem annars ætti að óbreyttu að fara fram í aðdraganda Eurovision sem fer fram í Vín í Austurríki um miðjan maí. Nú, nær sléttum mánuði síðar, hefur enn ekki verið ákveðið hvort Söngvakeppnin verði haldin.

„Það er allt saman í vinnslu, við erum ekki komin að neinni niðurstöðu og ekki komin þangað að fara að gefa eitthvað út. Þannig að við erum bara með málið allt í skoðun eins og það leggur sig,“ segir Eva Georgs Ásudóttir, dagskrárstjóri Rúv, í samtali við Vísi.

Eva Georgs Ásudóttir er dagskrárstjóri Rúv.Mynd/Eyþór

Hún geti ekki sagt til nákvæmlega hvenær niðurstaða muni liggja fyrir, en það muni skýrast fljótlega. Þegar hafði verið auglýst eftir framlögum til að taka þátt í Söngvakeppninni, en Eva segir ekki hafa reynt á það ennþá hvort einhverjir muni draga framlög sín til baka, enda hafi forsendur breyst síðan auglýst var eftir framlögum.

Sjá einnig: Ljóst að ein­hverjir dragi lög sín til baka

„Það er bara ákveðin biðstaða í gangi þar til við erum komin með niðurstöðu og þá myndum við bara kynna þá keppni, ef hún yrði haldin, á þeim forsendum. Og auðvitað fylgir þá að þeir sem hafa sent inn lög bara meta sín framlög út frá þeim forsendum, ef af verður,“ útskýrir Eva. „En það styttist í þetta, að við förum að geta sagt eitthvað meira.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.