Sport

Græðir milljón á dag með nýjum samningi

Sindri Sverrisson skrifar
Luke Littler getur ekki kvartað yfir peningamálum eftir tímamótasamning sem hann hefur nú gert við Target.
Luke Littler getur ekki kvartað yfir peningamálum eftir tímamótasamning sem hann hefur nú gert við Target. Getty/Warren Little

Tvöfaldi heimsmeistarinn í pílukasti, Luke Littler, verður aðeins 19 ára síðar í þessum mánuði en þarf engar áhyggjur að hafa af peningum og hefur nú skrifað undir metsamning.

Littler vann afar sannfærandi sigur á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Alexandra Palace og er óumdeilanlega fremsti pílukastari heims í dag þrátt fyrir ungan aldur.

Nú hefur hann skrifað undir styrktarsamning sem sagður er færa honum 20 milljónir punda, eða jafnvirði 3,4 milljarða króna.

Þessa stjarnfræðilegu upphæð fær Littler í gegnum nýjan samning við Target Darts, sem gildir til næstu tíu ára. Píluframleiðandinn segir að um sé að ræða stærsta samning í sögu pílukasts, á milli fyrirtækis og íþróttamanns.

Samningurinn færir Littler um það bil 340 milljónir króna á ári að meðaltali, eða hátt í eina milljón króna á dag.

Littler hafði áður fengið eina milljón punda, eða um 170 milljónir króna, fyrir að vinna heimsmeistaramótið.

„Target hefur haft trú á mér frá fyrsta degi,“ sagði Littler eftir nýja samninginn en Target sér einnig um umboðsmennsku fyrir hann.

„Allt frá ferli mínum sem pílukastari og að vöruúrvali mínu þá höfum við byggt allt upp saman og ég er mjög spenntur yfir því að tryggja samstarf okkar til langs tíma og sjá hvert við förum næst,“ sagði Littler en pílur, píluspjöld og treyjur merktar honum eru í sölu hjá Target.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×