Fótbolti

Al­freð að­stoðaði Frey á Spáni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alfreð og Freyr þekkjast vel og það fór vel á með þeim á Marbella.
Alfreð og Freyr þekkjast vel og það fór vel á með þeim á Marbella. Samsett/Vísir/Getty

Alfreð Finnbogason, nýr íþróttastjóri Rosenborgar, og Freyr Alexandersson, þjálfari Brann, eru staddir á Marbella á Spáni þar sem æfingamót fer fram. Þeir skoðuðu saman komandi andstæðing Brann í Evrópudeildinni.

Norski miðillinn BA frá Bergen fylgist vel með öllu sem viðkemur Brann og þar náði naskur ljósmyndari myndum af Frey ásamt Eggerti Aroni Guðmundssyni og Sævari Atla Magnússyni, leikmönnum liðsins, á Marbella á Spáni.

Þeir horfðu þar á æfingaleik austurríska liðsins Sturm Graz við Club Brugge frá Belgíu. Sturm Graz er eitt tveggja liða sem Brann mætir í síðustu leikjum norska liðsins í deildarhluta Evrópudeildarinnar í þessum mánuði.

Brann mætir Midtjylland á heimavelli 22. janúar og sækir Styrm Graz heim viku síðar.

BA náði myndum af fyrrum félaga Freys, Alfreð Finnbogasyni, og virtist fara vel á með þeim félögunum. Alfreð var leikmaður karlalandsliðsins þegar Freyr var aðstoðarþjálfari Eriks Hamrén á sínum tíma. Alfreð var þá einnig leikmaður Lyngby í Danmörku undir stjórn Freys.

Alfreð og Freyr verða andstæðingar í Noregi á komandi ári en Alfreð tók í vikunni við sem íþróttastjóri Rosenborgar í Þrándheimi. Hann sat þó með Frey og aðstoðaði hann við njósnir um austurrískan mótherjann í vikunni.

Brann hafnaði í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð og fer í Sambandsdeildina að ári. Liðið var aðeins einu stigi frá bronsi.

Rosenborg hafnaði í sjöunda sæti deildarinnar, 14 stigum á eftir Brann.

Brann er þá í 22. sæti Evrópudeildarinnar með átta stig. Efstu átta lið deildarinnar fara í 16-liða úrslit en liðin 16 þar fyrir neðan, í 9.-24. sæti, fara í umspil um sæti í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×