Körfubolti

Helgi Már: Lögðumst bara flatir fyrir þeim

Hjörvar Ólafsson skrifar
Helgi Már Magnússon freistar þess að finna lausnir með lærisveinum sínum. 
Helgi Már Magnússon freistar þess að finna lausnir með lærisveinum sínum.  Vísir/Diego

Helgi Már Magnússon var allt annað en sáttur við hugarfar leikmanna sinna þegar Grindavík féll úr leik í VÍS-bikar karla í körfubolta með tapi gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld. 

„Það er bara gríðarlega svekkjandi sjá okkur leggjast flata fyrir þeim í öðrum leikhluta. Við náðum ekki upp baráttu og framkvæmdum illa þá hluti sem við ætluðum að gera í þessum leik. Því fór sem fór,“ sagði Helgi Már Magnússson, þjálfari Grindavíkur, eftir leik.

„Við náðum vissulega flottum kafla í þriðja leikhluta en það útheimtir mikla orku að elta leiki eins og við vorum að gera. Við höfðum því ekki kraft til þess að koma okkur enn frekar inn í leikinn en raun bar vitni. Það þurfti allt að falla með okkur til þess að við gætum búið til leik og það gekk ekki upp því miður,,“ sagði Helgi Már þar auki.

Helgi Már vildi lítið ræða meiðsli Deandre Kane og sagði þau ekki afsökun fyrir tapinu: „Kane var nógu heill til þess að spila og hann var á gólfinu. Það er því engin afsökun fyrir þessu tapi að hann hafi verið að glíma við meiðsli,“ sagði hann.

„Það er leiðinlegt að við höfum ekki náð betri frammisstöðu fyrir þann fjölda Grindvíkinga sem lögðu leið sína á þennan leik. Við ætluðum okkur að gera mun betur fyrir framan frábæra stuðningsmenn okkar. Við skuldum þeim betri frammistöður í framhaldinu,“ sagði Helgi Már svekktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×