Viðskipti innlent

Skipta um for­stjóra hjá Origo

Atli Ísleifsson skrifar
Árni Geir Valgeirsson.
Árni Geir Valgeirsson.

Árni Geir Valgeirsson mun í febrúar taka við stöðu forstjóra Origo, eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri hugbúnaðarsviðs félagsins síðan 2024. Hann tekur við stöðunni af Ara Daníelssyni sem verður stjórnformaður.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að Árni Geir hafi víðtæka reynslu af stjórnun í upplýsingatæknirekstri og hugbúnaðarþróun. 

äHann starfaði áður hjá Íslandsbanka frá árinu 2011 þar sem hann var forstöðumaður stafrænnar þróunar á upplýsingatæknisviði, ásamt því að bera ábyrgð á tækniframþróun og tæknihögun, bæði í þróun og rekstri. Áður vann Árni við hugbúnaðarþróun og rekstur hjá Tern Systems, VIJV og Oz.

Árni er með B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í verkfræði með áherslu á máltækni og gervigreind frá Álaborgarháskóla,“ segir í tilkynningunni. 

Ari Daníelsson, sem gengt hefur stöðu forstjóra Origo síðustu tvö ár, mun samhliða þessu taka við hlutverki starfandi stjórnarformanns Origo, og jafnframt gegna áfram stöðu forstjóra Skyggnis Eignarhaldsfélags hf., móðurfélags Origo og 14 annarra fyrirtækja á sviði upplýsingatækni og innviða. 

Ari Daníelsson verður stjórnformaður Origo.

„Skyggnir eignarhaldsfélag var sett á laggirnar fyrir rúmi ári þegar samstæða Origo var endurskipulögð. Meðal félaga í meirihlutaeigu Skyggnis eru Ofar, Origo, Helix, Syndis, Aftra, DataLab, Unimaze og Corus, en það síðastnefnda var stofnað nýverið með samruna Moodup og Kjarna, mannauðslausna Origo,“ segir í tilkynningunni. 

„Rekstur og hlutverk Origo hefur tekið stakkaskiptum á liðnum árum og félagið er nú hreinræktað þjónustu- og þekkingarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Hjá félaginu starfa tæplega 200 sérfræðingar á sviði hugbúnaðarþróunar, ráðgjafar og reksturs tölvukerfa og viðskiptavinir eru mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins. Á sama tíma hefur Skyggnir Eignarhaldsfélag orðið til sem leiðandi afl á sviði viðskiptaþróunar og fjárfestingar í upplýsingatæknifélögum á Íslandi og styður við vöxt og velgengni marga rótgróinna félaga og nýrri vaxtarfyrirtækja. Nú er tímabært að skerpa á áherslum í daglegri stjórnun þessara tveggja ólíku eininga og tryggja fullan fókus þeirra sem þeim stýra“, er haft eftir Ara Daníelssyni forstjóra Skyggnis og fráfarandi forstjóra Origo.

„Hjá Origo starfar frábær hópur reynslumikilla sérfræðinga sem er sannarlega tilbúinn til að leiða íslenskt atvinnulíf og opinbera aðila inn í framtíðina þar sem tæknin skiptir öllu máli. Ég hlakka til að taka við keflinu og vinna áfram að spennandi og mikilvægum verkefnum fyrir viðskiptavini okkar“, segir Árni Geir Valgeirsson, verðandi forstjóri Origo.

Samhliða þessu verða breytingar á stjórn Origo ehf., þar sem Sigurður Valtýsson og Árni Jón Pálsson stíga frá stjórn Origo, en þeir eiga báðir sæti í stjórn móðurfélagsins Skyggnis og eru fulltrúar stærstu hluthafa félagsins. Nýr inn í stjórn Origo stígur Sæmundur Sæmundsson fyrrum forstjóri Eflu verkfræðistofu, en hann hefur áratuga reynslu af stjórnun í upplýsingatækni, fjármálaþjónustu og ráðgjöf. Áður starfaði hann sem forstjóri Borgunar, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Sjóvá og lengst af sem forstjóri Teris, Tölvumiðstöðvar Sparisjóðanna. Í stjórn Origo sitja áfram Rakel Guðmundsdóttir, eignarhaldsstjóri hjá Alfa Framtak og Baddý Sonja Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi 1xInternet í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×