Körfubolti

KR ekki í teljandi vand­ræðum með að tryggja sig í undan­úr­slit

Aron Guðmundsson skrifar
Kenneth Jamar Doucet Jr. setti niður 16 stig fyrir KR í kvöld
Kenneth Jamar Doucet Jr. setti niður 16 stig fyrir KR í kvöld Vísir/Ernir Eyjólfsson

KR komst nokkuð þægilega í undanúrslit VÍS bikars karla í körfubolta með öruggum sigri á Breiðabliki í átta liða úrslitunum. Lokatölur 102-72 sigur KR.  

Liðin mættust á Meistaravöllum í kvöld. KR leikur í Bónus deildinni en Breiðablik í næstefstu deild og heimamenn því sigurstranglegri fyrir leik kvöldsins. 

Þeir lentu ekki í teljandi vandræðum með græna liðið úr Kópavogi og leiddu leikinn nær allan tímann ef frá eru taldar nokkrar mínútur í upphafi leiks. 

Lokatölur á Meistaravöllum urðu 102-72, þrjátíu stiga stórsigur KR staðreynd. 

Orri Hilmarsson var stigahæsti leikmaður KR í kvöld með tuttugu stig og þá reif hann niður sex fráköst. Kenneth Jamar Doucet Jr. kom næst á eftir honum í stigaskorun í liði KR með sextán stig.

Sölvi Ólason var atkvæðamestur í liði Breiðabliks með þrettán stig, þá reif hann niður þrjú fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í þokkabót.

Auk KR eru lið Stjörnunnar og Tindastóls komin áfram í undanúrslit VÍS bikarsins. Nú stendur yfir leikur Vals og Keflavíkur þar sem liðin berjast um síðasta farmiðann í undanúrslitin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×