Erlent

Keyptu tæki sem gæti út­skýrt Havana-heilkennið

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrstu tilfelli Havana-heilkennisins fundust í sendiráði Bandaríkjanna á Kúbu árið 2016.
Fyrstu tilfelli Havana-heilkennisins fundust í sendiráði Bandaríkjanna á Kúbu árið 2016. Getty/Yander Zamora

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur í rúmt ár gert tilraunir á tæki sem gæti hafa verið notað til að framkalla Havana-heilkennið svokallaða. Bandarískir njósnarar eru sagðir hafa keypt tækið í leynilegri aðgerð fyrir milljónir dala í lok ríkisstjórnar Joes Biden en menn munu ekki vera sammála um hvort það virki eða tengist heilkenninu.

Havana-heilkennið vísar til veikinda og óútskýrðra heilbrigðisvandamála sem bandarískir og kanadískir embættismenn og erindrekar hafa kvartað yfir á undanförnum árum. Heyrnartap, ógleði, svimi og miklir höfuðverkir eru meðal þess sem fólk hefur fundið fyrir en fyrstu tilfellin greindust í sendiráði Bandaríkjanna í Havana á Kúbu, seint árið 2016.

Síðan þá hafa rúmlega hundrað manns frá Bandaríkjunum og Kanada víðs vegar um heiminn sagst hafa fundið fyrir sömu einkennum. Margir þeirra eru sérfræðingar í málefnum Rússlands eða í viðkvæmum stöðum innan stjórnvalda Bandaríkjanna.

Mikil veikindi og víða

Í einhverjum tilfellum hafa fylgikvillar þessara veikinda verið mjög miklir, svo miklir að fólk hefur þurft að setjast í helgan stein og getur ekki átt hefðbundið líf án aðstoðar. Árið 2024 bendluðu blaðamenn nokkurra miðla leynilega sveit rússneskra njósnara við heilkennið.

Sú sveit kallaðist Unit 29155. Blaðamenn 60 Mínútna og rússneska útlagamiðilsins Insider komu höndum yfir gögn sem þeir segja að hafi bent til þess að meðlimir sveitarinnar hafi gert tilraunir með vopn sem átti að geta valdið veikindum með því að senda út örbylgjur.

Sjá einnig: Ný sveit njósnara leiðir skuggastríð Rússa

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa aldrei staðfest að vopni hafi verið beitt gegn þessu fólki. Því hefur verið haldið fram að Havana-heilkennið sé einhvers konar fjöldamóðursýki en formleg niðurstaða rannsóknar innan leyniþjónustusamfélags Bandaríkjanna er að engar útskýringar hafi fundist á heilkenninu.

Í skýrslu sem unnin var vegna rannsóknarinnar kom fram að ein möguleg útskýring á þessum veikindum væru örbylgjur. Fólk sem talið er mögulega þjást af Havana-heilkenninu hefur lýst því hvernig það hafi fundið fyrir einhvers konar höggi og að það hafi misst heyrnina, eins og sprengja hafi sprungið nærri þeim. Í kjölfarið hafi fylgt sterkur höfuðverkur.

Ekki sammála um virknina

Nú segir CNN frá því að Bandaríkjamenn hafi keypt vopn sem mun mögulega hafa verið notað til að framkalla heilkennið. Tæki þetta kemst víst fyrir í bakpoka og framleiðir sérstakar bylgjur, samkvæmt heimildarmönnum miðilsins.

Samkvæmt þeim er tækið ekki upprunalega frá Rússlandi en inniheldur íhluti þaðan.

Tækið er enn til rannsóknar og samkvæmt CNN eru menn innan varnarmálaráðuneytisins ekki sammála um það hvort tækið virki eða hvort þeir hafi borgað fúlgur fjár fyrir ekki neitt.

Ef vopnið meinta sem er til rannsóknar virkar sem skildi, þá óttast Bandaríkjamenn að það sé komið í dreifingu um heiminn. Fleiri ríki og óvinveittir aðilar hafi komið höndum yfir vopn sem gæti verið notað til að skaða verulega bandaríska embættismenn og aðra.

Vill afsökunarbeiðni

Niðurstaða rannsóknar sem lauk árið 2023 var að ekki væri hægt að bendla óvinveitta aðila við Havana-heilkennið og ólíklegt væri að utanaðkomandi aðilar hefðu valdið þeim veikindum sem áðurnefnt fólk hefur kvartað yfir.

það var enn ráðandi skoðun leyniþjónustusamfélagsins í upphafi 2025.

Í yfirlýsingu til CNN sagði Marc Polymeropoulos, fyrrverandi starfsmaður Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) og einn þeirra fyrstu sem stigu opinberlega fram og kvörtuðu yfir Havana-heilkenninu, að ef fregnirnar af þessu vopni væru rættar, skulduðu yfirvöld Bandaríkjanna og sérstaklega leiðtogar CIA öllum fórnarlömbunum opinbera afsökunarbeiðni yfir því hvernig búið væri að koma fram við þau.

Mark S. Zaid hefur starfað sem lögmaður fólks sem veikst hefur af Havana-heilkenninu. Hann segir þingið þurfa að rannsaka málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×