Innlent

90 prósentum lands­manna þótti skaupið gott

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Landsmenn voru almennt mjög ánægðir með áramótaskaupið.
Landsmenn voru almennt mjög ánægðir með áramótaskaupið.

Níutíu prósentum landsmanna þótti áramótaskaupið gott og aðeins 3,3 prósentum þótti það slakt. Alls völdu 6,3 prósent valmöguleikann „bæði og“.

Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar sem lögð var fyrir svokallaða Þjóðgátt Maskínu dagana 9. til 13. janúar. Svarendur voru 971. Samkvæmt Maskínu hafa landsmenn ekki verið ánægðari með skaupið frá 2011.

62,8 prósent sögðu skaupið hafa verið mjög gott og 27,7 prósent frekar gott. Þá sögðu 2,2 prósent það hafa verið frekar slakt og 1,1 prósent þótti það mjög slakt. Athygli vekur að aðeins 3,1 prósent svarenda sögðust ekki hafa horft á áramótaskaupið.

Íbúar á Austurlandi voru óánægðastir með skaupið en aðeins 70,6 prósentum þeirra þótti skaupið gott og 9,5 prósentum þótti það slakt. Ef horft er á aldur þótti hópnum 60 ára og eldri það slakast, eða 6,1 prósent, og þá voru stuðningsmenn Flokks fólksins og Sjálfstæðisflokksins síst ánægðir með það, eða 6,1 prósent og 4,7 prósent.

Maskína



Fleiri fréttir

Sjá meira


×