Fótbolti

Meiðslamartröð Orra um að kenna en ekki leiðin­legum þjálfara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson missti af mjög mörgum leikjum á árinu 2025 og árið 2026 byrjar ekki nógu vel.
Orri Steinn Óskarsson missti af mjög mörgum leikjum á árinu 2025 og árið 2026 byrjar ekki nógu vel. Getty/Alex Nicodim

Íslenska framherjanum Orra Steini Óskarssyni var skipt út af í bikarleik Real Sociedad í spænska bikarnum í gærkvöldi, skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Margir hneyksluðust á þessari skiptingu en nú vitum við aðeins meira.

Real Sociedad endaði á því að vinna leikinn í vítaspyrnukeppni, 4-3, en leiknum sjálfum lauk með 2-2 jafntefli.

Utan frá leit út fyrir að íslenski landsliðsfyrirliðinn hefði verið tekinn af velli til að koma jafnvægi á liðið með því að setja miðvörðinn Jon Martín inn á í staðinn.

Pellegrino Matarazzo, bandaríski þjálfari Real Sociedad, sagði frá því á blaðamannafundi að Íslendingurinn hefði meiðst og því fengið skiptingu stuttu eftir að hann kom inn á völlinn. Mundo Deportivo segir frá.

Bandaríski þjálfarinn notaði síðustu skiptinguna á 88. mínútu og setti Íslendinginn inn á völlinn fyrir hinn meidda Duje Caleta-Car í leit að jöfnunarmarki. Orri snerti boltann rétt fyrir mark Igors Zubeldia þar sem Real tryggði sér framlengingu en hana spilaði Orri þó ekki.

Á blaðamannafundi eftir leik útskýrði bandaríski þjálfarinn að hann hefði þurft að jafna út áhættuna sem hann tók áður en bætti við að Íslendingurinn væri meiddur því hann hefði meitt sig á þessum stutta tíma sínum inni á vellinum. Þetta er annað áfall fyrir okkar mann og þetta hefur verið mjög erfitt tímabil hjá honum. 

Samkvæmt Matarazzo tognaði Orri á vöðva í hlaupi og það var nauðsynlegt að taka hann af velli. Meiðslamartröð Orra ætlar því engan endi að taka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×