Fótbolti

Ajax fær son Zlatans að láni frá AC Milan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maximillian Ibrahimovic fagnar marki með AC Milan Futuro, varaliði félagsins, sem spilar í D-deildinni á Ítalíu.
Maximillian Ibrahimovic fagnar marki með AC Milan Futuro, varaliði félagsins, sem spilar í D-deildinni á Ítalíu. Getty/AC Milan

Hollenska fótboltafélagið Ajax hefur staðfest að félagið hafi fengið son Zlatans Ibrahimović, Maximillian, að láni frá ítalska félaginu AC Milan.

Með þessum félagaskiptum fetar Maximillian í fótspor frægs föður síns, sem átti afar farsæl þrjú ár í Amsterdam þar sem hann vann meðal annars tvo meistaratitla.

Hollenska liðið hefur einnig kauprétt á þessum nítján ára gamla framherja í lok tímabilsins og sagði að hann myndi skipta tíma sínum milli U23-liðs Ajax og aðalliðsins.

Maximillian gekk til liðs við unglingaakademíu AC Milan árið 2022 og hefur síðustu sex mánuði spilað með varaliði þeirra, Milan Futuro, í ítölsku Serie D-deildinni.

„Við erum mjög ánægð með komu Maximilians,“ sagði yfirmaður knattspyrnumála hjá Ajax, Marijn Beuker.

„Hann er hæfileikaríkur framherji með gott staðsetningarskyn innan og í kringum vítateiginn og hann hefur sterka, markmiðadrifna afgreiðslu. Hann er fær í að rekja boltann og hefur umfram allt frábært sigurhugarfar og æfingaáhuga,“ sagði Beuker.

Zlatan Ibrahimović kom til Ajax frá Malmö FF sumarið 2001 en hann var nokkrum mánuðum frá tvítugsafmæli sínu. Maximillian er nítján ára en verður tvítugur í september.

Zlatan spilaði 110 leiki fyrir félagið í öllum keppnum og skoraði 48 mörk í 110 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×