Innlent

„Látið undan þrýstingi stóru fyrir­tækjanna í bú­vöru­fram­leiðslu“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir frumvarp atvinnuvegaráðherra að búvörulögum skref í rétta átt. Miður sé að ráðherra hafi látið undan þrýstingi stórframleiðenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir frumvarp atvinnuvegaráðherra að búvörulögum skref í rétta átt. Miður sé að ráðherra hafi látið undan þrýstingi stórframleiðenda. Vísir/Ívar Fannar

Frumvarp að nýjum búvörulögum er skref í rétta átt að mati framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Hann segir miður að ráðherra virðist hafa látið undan þrýstingi og tekið sé minna skref en þegar frumvarpsdrög voru birt.

Drög að frumvarpi að breyttum búvörulögum voru birt í október en frumvarpið er á dagskrá Alþingis í dag, á fyrsta fundi þess eftir jólafrí.

Frumvarpinu er ætlað að snúa við umdeildum breytingum á búvörulögum sem samþykkt voru á vorþinginu 2023, sem heimiluðu samruna afurðastöðva í auknum mæli án samþykkis samkeppnisyfirvalda. Á grundvelli laganna hefur Kaupfélag Skagfirðinga til að mynda getað keypt Kjarnafæði Norðenska án þess að Samkeppniseftirlitið fengi rönd við reist.

Skref stigið til baka?

Bændasamtökin kvörtuðu sáran undan drögunum að nýja frumvarpinu, þegar þau birtust í haust, og því að ekki hafi verið haft samráð við þá. Svo virðist sem rödd bænda hafi fengið að rata inn í frumvarpið, sem nú er lagt fyrir þingið.

„Það er verið að stíga skref til baka frá þeim óskapnaði sem Alþingi samþykkti þegar afurðarstöðvunum voru veittar mjög víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. 

Undanþágurnar á nú að þrengja frá því sem gilt hefur undanfarin misseri, bæði gagnvart kjötafurðastöðvunum en einnig mjólkuriðnaðinum, sem hefur haft undanþágur síðustu tvo áratugi.

„Hins vegar hefur atvinnuvegaráðherra látið undan þrýstingi úr landbúnaðinum hvað varðar skilgreiningu á þeim fyrirtækjum sem geta fallið undir undanþágurnar.“

Tækifæri til að styrkja stöðu bænda ekki gripið

Í frumvarpsdrögum var tekið fram að undanþágu fengju framleiðendafélög í meirihlutaeigu eða í stjórn bænda. Nú hefur það verið útvíkkað til afurðastöðva í mjólk og rauðu kjöti.

Ólafur segir þetta áhyggjuefni. Hefðu drögin haldist óbreytt hefði að hans mati staða bænda styrkst og stóru félögin, eins og KS og SS, þurft að breyta sínu skipulagi vildu þau undanþágurnar, þannig að bændur væru við stjórn.

„Þetta tækifæri til að styrkja stöðu bænda í virðiskeðjunni, það á augljóslega ekki að grípa það. Þarna hefur verið látið undan þrýstingi stóru fyrirtækjanna í búvöruframleiðslu er ég hræddur um.“

Eins og fyrr segir mótmæltu bændur mjög drögunum að frumvarpinu þegar þau voru birt í haust og voru Bændasamtökin ákveðin í stuðningi sínum við breytingarnar umdeildu frá 2023. Ólafur segist ekkert í þessu skilja. 

„Ég hef aldrei skilið þetta Stokkhólms-heilkenni Bændasamtakanna gagnvart stóru afurðastöðvunum og skil það ekki enn,“ segir Ólafur. 

„Við vonum að niðurstaðan verði sú að hægt verði að tryggja hagræðingu í búvöruframleiðslu án þess að bera fyrir borð hagsmuni samkeppni og neytenda.“

Vonar að hlustað verði á öll sjónarmið í þetta skiptið

Hann segir að Félag atvinnurekenda muni skila inn umsögn um frumvarpið þegar það fer til meðferðar í atvinnuveganefnd að lokinni fyrstu umræðu í þinginu. Hann vonar að nefndin fái félagið, og aðra hagsmunaaðila, að borðinu í þetta skiptið en slíkt var ekki gert við breytingarnar 2023. 

„Við munum leggja til að eftirlitsheimildir Samkeppniseftirlitsins verði styrktar enn frekar í þessum lögum og að skilgreiningin á þeim sem njóti undanþágunnar miðist við félög sem eru raunverulega í eigu og undir stjórn bænda,“ segir Ólafur. 

„Á sínum tíma var ekki óskað eftir sjónarmiðum sem voru á skjön við það sem meirihluti nefndarinnar þá vildi keyra í gegnum þingið. Vonandi verður það öðruvísi núna.“


Tengdar fréttir

Alþingi kemur saman í dag eftir jólafrí

Alþingi kemur saman í dag í fyrsta sinn eftir jólafrí. Þingfundur hefst klukkan 15 en á dagskrá er meðal annars minningarstund vegna Sturlu Böðvarssonar, fyrrverandi þingmanns og forseta Alþingis.

Kúabændur skora á ráðherra að falla frá breytingum

Kúabændur segja nýtt frumvarp um breytingar á búvörulögum ráðast gegn starfsumhverfi sem þeir hafi starfað eftir í tvo áratugi og byggt skipulag og fjárfestingar sínar á. Tæplega fimm hundruð kúabændur skora á ráðherra að falla frá frumvarpinu.

Bændum veru­lega brugðið vegna breytinga á búvörulögum

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, segir bændur verulega ósátta við frumvarpsdrög atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögum. Þeim hafi verið brugðið að sjá tillöguna og telji breytingarnar sérstaklega hafa slæm áhrif á mjólkuriðnað í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×