Sport

Á­huga­maður vann meistarann og milljón dollara

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Fáir geta sigrað Jannik Sinner en Jordan Smith þurfti bara að stela einu stigi.
Fáir geta sigrað Jannik Sinner en Jordan Smith þurfti bara að stela einu stigi. Graham Denholm/Getty Images

Jordan Smith er milljón áströlskum dollurum ríkari eftir sigur á sýningarmóti sem var haldið í undirbúningi fyrir opna ástralska meistaramótið.

Á þessu skemmtilega móti er aðeins spilað upp í eitt stig og því má alls ekkert fara úrskeiðis. Þátttakendur eru bæði áhugamenn og atvinnumenn í efstu sætum heimslistans.

Á leið Smith í úrslitaleikinn lagði hann Jannik Sinner, ríkjandi meistara opna ástralska risamótsins og næstbesta tenniskappa heims samkvæmt nýjasta heimslista, og Amanda Anisimova, fjórðu bestu tenniskonu heims.

Smith mætti svo Joanna Garland (117. sæti á heimslista kvenna) í úrslitaleiknum en hún vann þriðja besta tenniskappa heims, Alexander Zverev, og heimamanninn Nick Kyrgios sem hefur komist í úrslitaleik opna ástralska meistaramótsins.

Mótið einkenndist almennt af gleði og meira að segja reiðiskast Kyrgios og spaðaskemmdirnar sem hann er frægur fyrir komu ekki í veg fyrir það.

Mótið var haldið í fyrsta sinn í fyrra en er fljótt að verða mjög vinsæll hluti af opna ástralska meistaramótinu, sem hefst eftir fjóra daga. Í fyrra var mótið með mun minna sniði og aðeins einn keppandi, Andrey Rublev, var í efstu tíu sætum heimslistanna.

Þá var verðlaunaféð líka ekki nema sextíu þúsund ástralskir dollarar en í ár er sigurvegarinn Jordan Smith milljón dollurum ríkari. 

Stjörnunar á mótinu virtust ekki svo svekktar með að sjá áhugamann vinna og samglöddust mikið eins og sjá má hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×