Handbolti

Undrandi á skrýtinni stöðu: „Þetta er bara ekki að virka“

Aron Guðmundsson skrifar
Vonandi fyrir íslenska landsliðið mun Haukur finna fjölina sína á nýjan leik. Sérfræðingar Besta sætisins standa á gati varðandi það hvers vegna stoðsendingahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar nái ekki að spila vel með íslenska landsliðinu.
Vonandi fyrir íslenska landsliðið mun Haukur finna fjölina sína á nýjan leik. Sérfræðingar Besta sætisins standa á gati varðandi það hvers vegna stoðsendingahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar nái ekki að spila vel með íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Staða Hauks Þrastarsonar í íslenska landsliðinu var til umræðu í hlaðvarpinu Besta sætinu eftir sigur Íslands á Ítalíu í gær. Sérfræðingar þáttarins segja Ísland ekki hafa efni á því að hafa Hauk ekki í stuði ætli liðið sér langt á mótinu.

Í æfingarleikjunum hjá íslenska landsliðinu í aðdraganda EM var eftir því tekið hversu illa Hauki tókst að finna sig í þeim leikjum og í fyrsta leik á EM gegn Ítalíu kom hann inn á þegar að um tíu mínútur voru eftir af leiknum. 

Haukur hefur verið að gera afar góða hluti með Rhein Neckar-Löwen í þýsku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili, hans fyrsta tímabil í Þýskalandi, en virðist ekki takast að láta kné fylgja kviði með landsliðinu.

„Þetta er mjög skrýtið,“ segir Einar Jónsson, sérfræðingur Besta sætisins um stöðuna á Hauki. „Það verður að segjast alveg eins og er. Hann átti mjög erfitt uppdráttar í fyrstu leikjunum sínum í þýsku deildinni með Rhein Neckar-Löwen en svo bara springur hann út, dælir stoðsendingum og er meira að segja farinn að skora meira en hann hefur verið að gera. Hann virðist þar vera að finna það gæðastig, sem við öll vonuðumst eftir hjá honum og ætlumst til af honum.“

En þegar komi að síðustu leikjum með íslenska landsliðinu honum ekki tekist að grípa gæsina. 

„Í æfingarleiknum á móti Slóveníu í aðdraganda EM kemur hann inn á eftir einhverjar tuttugu mínútur og er farinn aftur út af skömmu seinna. Hann fær þarna tvær mínútur fyrir bull hjá sjálfum sér og fokkaði því eiginlega upp sjálfur. Haukur var aðeins inni í þessu á síðasta stórmóti en það er bara erfitt að staðsetja hann í þessu liði. Þetta er bara ekki að virka.“

Og það hjá leikmanni sem Einar taldi  hélt að yrði nánast fyrstur inn af bekknum hjá okkur á þessu móti en á móti Ítölum „fær hann ruslmínúturnar.“ 

„Vonandi var þetta bara leikplanið hjá Snorra með Hauk,“ bætir Rúnar Kárason, fyrrverandi landsliðsmaður við. „Að leikurinn á móti Ítölum væri ekki leikurinn hans Hauks og að hann henti betur í leikjunum á móti Póllandi og hinum. Ég vil svo mikið að hann fái pláss þarna og vil að Haukur taki sér pláss þarna. Hann er ekki að því á þessari stundu.“

Erfitt sé að setja fingur á það hverju er um að kenna.

„Hann er ekki að skila sínu. Er Snorri ekki að gefa honum nógu margar mínútur? Er Haukur ekki með nógu mikið sjálfstraust? Það er rosa asnalegt að segja að leikmaður, sem er að spila allar mínútur með Rhein Neckar-Löwen og er stoðsendingahæstur í þýsku deildinni, sé ekki með nógu mikið sjálfstraust. Þetta er mjög sérstakt.“

Einar og Rúnar eru hins vegar sammála um að ef Ísland ætli sér langt á mótinu þá hafi landsliðið ekki efni á því að hafa Hauk ekki í stuði því það munu koma tímapunktar í meira krefjandi leikjum þar sem liðið muni þarfnast fimm eða fleiri marka frá honum. Umræðuna um Hauk Þrastarson sem og ítarlega greiningu á fyrsta leik Íslands á mótinu má hlusta á í hlaðvarpsþættinum Besta sætið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×