Sport

Jón Erik skíðaði sig inn á Ólympíu­leikana

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jón Erik Sigurðsson er á leiðinni á Vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina.
Jón Erik Sigurðsson er á leiðinni á Vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina. SKÍ

Jón Erik Sigurðsson er efstur íslenskra karla á nýjasta stigalista alþjóða skíðasambandsins í alpagreinum og tryggði sér þar með sæti á Vetrarólympíuleikunum á Ítalíu í næsta mánuði.

Þrír íslenskir keppendur höfðu nú þegar tryggt sér sæti á ÓL en spennan var gríðarleg í karlaflokknum, þar sem þrír skíðakappar kepptu um eitt laust sæti. Þeir voru allir að keppa á mótum í síðustu viku og um helgina sem skáru úr um hvort þeir kæmust inn. 

Á endanum varð Jón Erik Sigurðsson efstur á listanum í alpagreinum með 1578 stig, aðeins 54 stigum meira en Gauti Guðmundsson sem skoraði 1524 stig. Bjarni Þór Hauksson fylgdi þeim fast eftir en endaði með 1338 stig.

Ísland fær boðsmiða á Vetrarólympíuleikana í gegnum kvótakerfið og samkvæmt reglum Skíðasambands Íslands verður Jón Erik því tilnefndur til þátttöku en formleg tilkynning mun berast eftir fund stjórnar SKÍ. 

Fær Hólmfríður Dóra grænt ljós á morgun? 

Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir varð efst, enda sú eina á listanum, í kvennaflokki í alpagreinum og verður því einnig tilnefnd. Hún er þó að glíma við meiðsli eftir að hafa brotið bein í sköflungi undir lok síðasta árs.

Hún fer í myndatöku á morgun og lokaákvörðun verður þá tekin um hennar þátttöku, samkvæmt Brynju Þorsteinsdóttur, afreksstjóra Skíðasambandsins sem ræddi símleiðis við Vísi.

Dagur og Kristrún byrjuð að undirbúa sig 

Dagur Benediktsson og Kristrún Guðnadóttir munu svo keppa fyrir hönd Íslands í skíðagöngu á Vetrarólympíuleikunum en þau voru, líkt og Hólmfríður, þau einu á listanum.

Dagur er kominn til Ítalíu að undirbúa sig og Kristún er í æfingabúðum í Noregi.

Vetrarólympíuleikarnir í Mílanó og Cortina hefjast þann 6. febrúar og þeim lýkur þann 22. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×