Enski boltinn

„Sumir ungir þjálfarar nú til dags eru hroka­fullir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim hafði ekki trú á Rasmus Höjlund og leyfði honum að fara til Napoli þar sem hann hefur blómstrað.
Ruben Amorim hafði ekki trú á Rasmus Höjlund og leyfði honum að fara til Napoli þar sem hann hefur blómstrað. Getty/Catherine Ivill

Antonio Conte þjálfari Napoli virtist skjóta aðeins á Ruben Amorim, fyrrverandi aðalþjálfara Manchester United, og gefa í skyn að hroki fyrri þjálfara hafi hindrað þroska Rasmus Höjlund sem framherja.

Höjlund gekk til liðs við Napoli á lánssamningi út tímabilið en ítalska félagið er skuldbundið til að gera samninginn varanlegan ef það kemst í Meistaradeildina.

Daninn gekk til liðs við United frá Atalanta árið 2023 fyrir 64 milljónir punda og skoraði 26 mörk í 95 leikjum.

Amorim hafði litla trú á Dananum

Amorim hafði litla trú á Dananum á meðan Portúgalinn stýrði United-liðinu á Old Trafford og Höjlund kom ekki við sögu í neinum af fyrstu fjórum leikjum félagsins í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Højlund byrjaði vel hjá Napoli og skoraði níu mörk í fyrstu tuttugu leikjum sínum en hefur ekki fundið netmöskvana síðan hann skoraði tvö mörk gegn Cremonese þann 28. desember síðastliðinn.

Í stað þess að þjálfa hann kenna þeir honum um

„Sumir ungir þjálfarar nú til dags eru hrokafullir og vilja ekki aðlagast. Þeir sjá ungan framherja eiga í erfiðleikum og í stað þess að þjálfa hann kenna þeir honum um,“ sagði Antonio Conte á blaðamannafundi á föstudag fyrir sigurinn gegn Sassuolo um helgina.

„Þeir kvarta alltaf og kenna öllum um nema sjálfum sér, því allt er rétt af þeim á silfurfati,“ sagði Conte.

Íþróttastjóri Napoli, Giovanni Manna, hefur sagt að hann líti á varanleg kaup á Højlund frá Manchester United sem „formsatriði“.

Við gerðum allt til að fá hann

„Við gerðum allt sem við gátum til að fá hann,“ sagði Manna við ítalska dagblaðið Corriere dello Sport.

„Það voru sögufrægari félög sem höfðu áhuga en vilji hans skipti sköpum og við erum stolt af því. Það er kaupréttur og kaupskylda ef við komumst í Meistaradeildina,“ sagði Manna.

„Leikmaðurinn lítur á sig sem leikmann Napoli og það sama gildir um okkur. Þetta er afar mikilvægt,“ sagði Manna.

Napoli er í þriðja sæti í Serie A, sex stigum á eftir toppliði Internazionale og mætir Juventus á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×