Innlent

Þrír fullir Ís­lendingar lausir úr haldi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fjöldi Íslendinga hefur lagt leið sína til Kristianstad til að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handbolta á EM.
Fjöldi Íslendinga hefur lagt leið sína til Kristianstad til að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu í handbolta á EM. EPA/Johan Nilsson

Sænska lögreglan hafði afskipti af þremur íslenskum karlmönnum fyrir drykkjulæti í Kristianstad í Svíþjóð á laugardaginn var. Mennirnir voru í haldi lögreglu í nokkrar klukkustundir en voru síðan látnir lausir. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Kristianstad í samtali við Vísi.

Fram kom í fréttum í gær að íslenskur stuðningsmaður karlalandsliðsins í handbolta hafi verið handtekinn í Kristianstad, þar sem riðill Íslands á Evrópumótinu í handbolta fer fram. Ekki fylgdi þá sögunni af hverju viðkomandi hafi verið handtekinn en utanríkisráðuneytið staðfesti að eitt mál hafi komið inn á borð borgaraþjónustunnar í tengslum við EM í handbolta.

Samkvæmt upplýsingum frá sænsku lögreglunni er þó enginn Íslendingur þar í varðhaldi sem stendur, en lögregla hafði afskipti af nokkrum Íslendingum um helgina vegna ölvunar.

„Það var á laugardaginn, 17. janúar, sem þrír íslenskir karlmenn voru teknir í varðhald fyrir að vera fullir,“ segir Thomas Johansson, talsmaður lögreglunnar á svæðinu í samtali við Vísi. Mennirnir hafi aftur verið frjálsir ferða sinna eftir nokkra klukkutíma í varðhaldi og enginn Íslendingur sé í gæsluvarðhaldi.

Að öðru leyti er Johansson ekki kunnugt um önnur lögreglumál þar sem Íslendingar hafa komið við sögu í tengslum við EM. Nokkur þúsund Íslendingar hafa lagt leið sína til Kristianstad til að fylgjast með landsliðinu en svo virðist sem íslenskir aðdáendur hafi að mestu leyti hagað sér vel framanaf móti.

„Eftir því sem ég best veit hefur annars verið frekar rólegt,“ segir Thomas. 

Ísland spilaði sinn fyrsta leik á mótinu á föstudagskvöldið og leikur númer tvö fór fram á sunnudaginn. Ísland mætir síðan Ungverjalandi í hreinum úrslitaleik í F-riðli í kvöld, áður en liðið heldur áfram til Malmö þar sem milliriðill Íslands keppir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×