Fótbolti

Ís­lensku landsliðskonurnar spila á heima­velli Nottingham Forest

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir hughreystir Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir svekkjandi úrslit á Evrópumótinu í fyrra. 
Alexandra Jóhannsdóttir hughreystir Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir svekkjandi úrslit á Evrópumótinu í fyrra.  EPA/ALESSANDRO DELLA VALLE

Íslenska kvennalandsliðið mun mæta Evrópumeisturum Englendinga á City Ground í Nottingham í undankeppni næsta heimsmeistaramóts.

Undankeppni HM í Brasilíu 2027 hefst í mars og þá eiga íslensku konurnar tvo afar erfiða útileiki.

Sá fyrri er á móti heimsmeisturum Spánar 3. mars og sá síðari á móti Evrópumeisturunum fjórum dögum síðar. Án efa erfiðasti gluggi íslenska kvennalandsliðsins frá upphafi, útileikir á móti ríkjandi heims- og Evrópumeisturum.

Englendingar ákváðu að leikurinn við íslenska landsliðið færi fram á heimavelli enska úrvalsdeildarfélagsins Nottingham Forest. KSÍ staðfestir þetta á miðlum sínum

Englendingar spila heimaleik sinn á móti Spáni í undankeppninni á Wembley.

City Ground er meira en 127 ára gamall en hann hefur auðvitað verið margoft stækkaður og uppfærður.

Völlurinn tekur í dag 31 þúsund manns í sæti en á áætlun er að stækka hann upp í 45 þúsund manna völl árið 2031 og upp í 52 þúsund manna völl árið 2033.

Nottingham Forest hefur spilað heimaleiki sína á City Ground frá árinu 1898.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×