Fótbolti

Newcastle og Chelsea unnu bæði í Meistara­deildinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Barnes fagnar þriðja og síðasta marki Newcastle United á St. James´s Park í kvöld.
Harvey Barnes fagnar þriðja og síðasta marki Newcastle United á St. James´s Park í kvöld. Getty/Robbie Jay Barratt

Fimm ensk félög eru í hópi átta efstu liðanna í Meistaradeildinni eftir að sjöundu umferðinni lauk í kvöld og aðeins ein umferð er eftir.

Newcastle er komið upp í sjöunda sætið eftir 3-0 heimasigur á PSV Eindhoven og Cheslea er í áttunda sætinu eftir 1-0 heimasigur á Pafos.

Liverpool fór upp í fjórða sætið með 3-0 útisigri á Marseille og Tottenham er síðan í fimmta sætinu eftir sigur sinn á Dortmund í gær. Arsenal er síðan með fullt hús á toppnum.

Yoane Wissa (8. mínúta), Anthony Gordon (30. mínúta) komu Newcastle í 2-0 í fyrri hálfleik og Harvey Barnes innsiglaði svo sigurinn með þriðja markinu á 65. mínútu. Liðið varð þó fyrir smá áfalli þegar Bruno Guimaraes meiddist undir lok fyrri hálfleiks.

Skallamark Moisés Caicedo á 78. mínútu tryggði Chelsea nauman 1-0 sigur á kýpverska félaginu Pafos.

Bayern München vann 2-0 sigur á belgíska félaginu Union St.Gilloise. Harry Kane skoraði mörkin á 52. og 55. mínútu en seinna markið var úr víti. Kane fékk tækifæri til að innsigla þrennuna á 81. mínútu en skaut þá í stöngina úr vítaspyrnu. Bæjarar voru manni færri frá 63. mínútu þegar Min-Jae Kim fékk sitt annað gula spjald. Bayern er í öðru sætinu, þremur stigum á eftir toppliði Arsenal.

Khéphren Thuram-Ulien og Weston McKennie tryggðu Juventus 2-0 sigur á Benfica. Juve er í fimmtánda sætinu.

Athletic Club Bilbao vann 3-2 útisigur á Atalanta á Ítalíu. Gorka Guruzeta, Nico Serrano og Robert Navarro skoruðu mörkin en Navarro átti einnig tvær stoðsendingar. Gianluca Scamacca og Nikola Krstovic skoruðu mörk ítalska liðsins. Athletic er í 23. sæti og í mikilli baráttu um að komast í útsláttarkeppnina en Atalanta er í þrettánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×